141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka efnahags- og viðskiptanefnd fyrir samstarfið í þessu máli, sérstaklega formanni nefndarinnar. Nefndin hefur reynt að gera breytingar til að bæta þetta mál. Ég tel rétt að styðja þær breytingartillögur sem hafa komið fram, auk þess að sjálfsögðu að styðja þær tillögur sem ég sjálf stend að.

Hið sama gildir um þá breytingartillögu sem er komin fram frá hv. þingmönnum Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Pétri H. Blöndal.

Ég verð hins vegar að segja að þar sem ég tel ekki nógu langt gengið í því að gæta að vernd neytenda get ég ekki stutt málið í heild sinni. Það snýr fyrst og fremst að því að við erum hér að setja enn á ný fasteignalán með öðrum almennum neytendalánum undir sama lagabálk. Ég tel að við þurfum að setja svo miklu skýrari lög hvað varðar vernd við þessa stærstu einstöku fjárfestingu heimilanna, fasteignalánin, hef lagt fram tillögur þess efnis, talað fyrir þeim og hafði vonast eftir því að sjá á þingi (Forseti hringir.) frumvarp þess efnis. Það hefur ekki skilað sér þannig að að mínu mati er alveg ljóst að við munum þurfa að taka þessi lög upp mjög fljótlega.