141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:25]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir það með ýmsum sem hér hafa talað að hér er mjög mikilvægt mál á ferðinni sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum. Við teljum að í þessu felist mikil réttarbót. Það eru hins vegar alveg réttmætar ábendingar um að þessi mál þarf að vinna áfram og jafnvel gera enn betur en hér er gert. Meiri hluti tillögunnar flytur margar breytingartillögur sem við styðjum einnig. Hér er líka tillaga um flýtimeðferð sem ég held að sé gagnleg inn í þessa umræðu og við munum styðja hana.

Eins og ég segi er hér almennt séð mikil réttarbót á ferðinni. Þetta mál varðar fjölskyldur í landinu mjög miklu. Ástæða er til að undirstrika það í ljósi umræðunnar sem fór fram áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta um að engin mál á dagskránni lytu að hagsmunum heimilanna í landinu. Þetta er mjög mikilvægt mál í því efni.