141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er iðulega þannig með verðtryggð langtímajafngreiðslulán að greiðslubyrðin jafnast yfir allan tímann. Þess vegna er mjög varasamt fyrir fólk um fimmtugt að taka lán til 40 ára því að þá er fólk orðið nírætt þegar það borgar síðustu greiðsluna. Mikið af greiðslunum fellur yfir á ellilífeyristíma þegar tekjur mannsins eru miklu lægri en á starfstímanum.

Þess vegna er lagt til í breytingartillögu að menn séu upplýstir um þær greiðslur á láninu sem lenda utan hefðbundinnar starfsævi. Ég skil ekki í því að menn greiði atkvæði gegn þessu því að mér finnst svo sjálfsagt að menn séu upplýstir um það. Það á ekki að plata menn til að taka lán langt út fyrir starfsævina.