141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Lengi hefur það tíðkast á Íslandi og ekki verið okkur til sóma að fólki sem hefur ráðist í stærstu fjárfestingu lífs síns hefur verið sýnd spá um þróun á verðtryggðu láni með verðbólgumarkmiði Seðlabankans eða jafnvel 0% verðbólgu sem forsendu. Hér er verið að tryggja að þegar fólk sem kannski hefur ekki mikið fjármálalæsi tekur lán til stærstu fjárfestingar ævinnar verði því sýnd hver greiðslubyrðin yrði miðað við verðbólguna eins og hún hefur verið síðustu tíu árin þannig að fólk horfist í augu við það við lántökuna hversu mikil áhætta getur verið því samfara að taka verðtryggð lán.