141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar þetta frumvarp kom fyrst fram spurðist ég fyrir hvort ekki hefði verið hægt að samþykkja að setja takmörk á þá okurlánastarfsemi sem smálánafyrirtækin hafa iðkað í íslensku samfélagi. Niðurstaðan varð hins vegar að samþykkja frumvarpið í heild sinni.

Ég sagði fyrr við þessa atkvæðagreiðslu að ég fagna þeim breytingum sem eru lagðar hér til en að ég hefði viljað sjá á þessu þingi, eins og var talað um, almenna löggjöf um fasteignalán þannig að við séum ekki að blekkja neytendur með að í raun sé búið að tryggja rétt þeirra þegar kemur að þessari stærstu einstöku fjárfestingu hvers einasta heimilis í landinu. Það er ekki búið að því. Það er ekki verið að tryggja greiðsluúrræði. Það er ekki verið að setja reglur um það hvernig á að standa að fjármögnun, hver veðhlutföll eiga að vera, hvernig á að verðmeta fasteign sem er verið að kaupa, til að nefna nokkur atriði sem ættu að vera í þess háttar löggjöf. (Forseti hringir.) Að mínu mati er mjög brýnt að vinna þetta og ég tek undir og fagna því sem kom frá hæstv. ráðherra, að það sé verið að vinna þetta, en það hefði mátt gera það mun fyrr og vinna þá samhliða þeirri skýrslu sem er væntanleg um neytendavernd á fjármálamarkaði og skoða tillögur hennar.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann.)