141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:50]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Verðbólga undanfarinna tíu ára segir nákvæmlega ekkert til um verðbólgu næstu ára í framtíðinni. Þetta ákvæði í þessu frumvarpi er algjör markleysa og þykjustuleikur. Það að vísa fólki í staðinn úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð lán þar sem fjármálafyrirtækin hafa einhliða allt ákvörðunarvald um breytingu á vöxtum er ekki neytendavernd, það er vernd fyrir fjármálafyrirtæki. Þannig er staðan og þannig er farið með hugtakið neytendavernd af hálfu stjórnarmeirihlutans á þessu þingi. Neytendaverndin heitir fjármálafyrirtækjavernd í raun.

Það er dapurlegt eftir hrunið og allar skuldir heimilanna að menn skuli ekki vera komnir lengra en þetta fjórum árum síðar, en það segir margt um Alþingi Íslendinga og það sést vel á töflunni hverjir snúa bökum saman í þessu máli og gegn hverjum bökum er snúið saman. Það er verið að snúa bökum saman (Forseti hringir.) gegn neytendum á Íslandi.