141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[11:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni, breytingartillaga á þskj. 1244 er með ólíkindum. Það er ótrúlegt að það skuli hafa verið leyft og það sé þingtækt að með einni breytingartillögu um hvernig eigi að breyta stjórnarskránni sé lögð undir ný stjórnarskrá. Ég tel þetta ekki þingtækt. En þetta sýnir klæki Hreyfingarinnar. Henni finnst þetta eflaust mjög snjallt. Strax í byrjun stóð hún líka að því með stjórnarliðum að skipa þannig í nefndir að ekki væri gætt fulls lýðræðis. Hún stóð að því með þeim í byrjun.

Þau í Hreyfingunni voru fljót að tileinka sér klæki á hinu háa Alþingi, einmitt klæki sem þau þóttust berjast gegn. Þau hafa lært vel og mikið og hratt.