141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:02]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér eru komnar fram mjög sérkennilegar kröfur, önnur frá hv. þm. Illuga Gunnarssyni sem skorar á forseta að stöðva þessar umræður og önnur frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sem skorar á forseta að ljúka þessu rugli. Ég get alveg sagt hvað menn eru að gera hér ef áheyrendur eða fjölmiðlar átta sig ekki á því. Menn eru að reyna að tefja tímann fram til klukkan hálftvö til að dagskrármálið um stjórnarskrána komist ekki á dagskrá fyrir matarhlé, fyrir klukkutímahlé. [Kliður í þingsal.]

Við höfum rætt stjórnarskrána í hartnær tvö ár í þinginu. Það er fyrirsláttur að segja að nú sé of lítill tími til þess að ljúka þeim umræðum. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, ég tel að þessu þingi sé ekkert að vanbúnaði að ljúka málinu í heild. Stjórnarandstaðan, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, (Forseti hringir.) hefur ítrekað (Forseti hringir.) komið í veg fyrir það. (Forseti hringir.) Lái okkur hver sem vill að við skulum reyna að koma þó einhverju (Forseti hringir.) hér í gegn, það er lágmarkið.