141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Þetta breytingartillögufár um frumvarp til laga um breytingu á breytingarákvæði stjórnarskrár er tómur farsi. Það vekur undrun að forseti Alþingis skuli hafa látið sér það til hugar koma að setja þetta mál á dagskrá eins og hér hefur verið gert.

Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvort sú breytingartillaga sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur lagt fram um heila stjórnarskrá í breytingartillögu með engum athugasemdum eða neinu slíku hafi verið úrskurðuð þingtæk. — Gæti ég fengið athygli hjá virðulegum forseta? Hefur verið úrskurðað (ÞSa: Það er allt þingtækt.) að þessi breytingartillaga sé þingtæk, að það sé hægt að koma með í 2. umr. heilt frumvarp, heila stjórnarskrá? Telja menn virkilega á forsetastóli að það samræmist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem síðast þegar ég vissi er enn í gildi?