141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að sú viðleitni sem þingmenn stjórnarflokkanna höfðu hér uppi, að koma þessu máli úr þeirri klemmu sem það er í, er góðra gjalda verð. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Ég held að málið sé núna komið á jafnvel verri stað en það var á áður en sú tilraun var gerð, því miður. Hér eru komnar fram að minnsta kosti þrjár, ef ekki fjórar, breytingartillögur við þá hugmyndafræði sem formenn stjórnarflokkanna lögðu upp með. Mér sýnist ekki nokkur einasta sátt um þessar tillögur. Hér er komið fram nýtt ákvæði um náttúruauðlindir sem ég ætla að leyfa mér að ráðast ekki á þó að einhverjir hafi gert það þegar framsóknarmenn viðruðu slíkar hugmyndir. Málið er bara að það er engin sátt um að klára þetta mál á þeim grunni sem er hérna. Hvenær ætla þingmenn að opna augun fyrir því? Hvenær ætlar forseti að opna augun fyrir þessu? Á það virkilega að vera þannig að næstu daga (Forseti hringir.) verði talað um stjórnarskrána hér, breytingartillögurnar, (Forseti hringir.) afdrif, áhrif og allt þess háttar án þess (Forseti hringir.) að sjá fyrir endann á málinu?