141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

mál á dagskrá.

[13:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði fyrst að nefna það að afgreiðsla frumvarps um neytendalán hér áðan sýnir að það er hægt að koma ýmsu í verk í þingstörfunum ef rétt er á málum haldið. Hins vegar er líka hægt að stefna þingstörfunum í óefni með því að taka á dagskrá þau mál sem mestur ágreiningur er um áður en búið er að leita leiða til að leiða þau einhvern veginn í jörð. Ef menn velja að tala fyrst og fremst um ágreiningsmálin setur það auðvitað sinn svip á þingstörfin, en ef vilji er til þess að koma að einhverjum af þeim ágætu málum sem eru á dagskrá þingsins í dag og afgreiða þau er það líka möguleiki. Þetta er allt spurningin um það hvernig dagskrá er ákveðin og hvernig fundarstjórn er háttað.

Þess vegna vil ég koma því á framfæri við hæstv. forseta að kanna hvort hægt sé að gera þær breytingar á dagskrá sem geta hugsanlega orðið til þess að einhver af þeim málum sem samkomulag gæti náðst um verði tekin til umræðu og afgreidd en stærstu ágreiningsmál þessa þings verði hins vegar sett á ís.