141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

mál á dagskrá.

[13:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fékk ekki svar áðan við spurningunni um hvort það sé þingtækt að koma með eitt stykki stjórnarskrá sem breytingartillögu. Ef það er hægt á ég líka mína prívat stjórnarskrá heima sem ég gæti flutt sem breytingartillögu. Mér finnst hún miklu betri.

Ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi mig og fleiri um þetta. Svo eru núna að koma inn breytingartillögur við þessa tillögu sem fjallar eiginlega eingöngu um breytingu á stjórnarskránni og þá er aftur spurningin hvort slíkt sé þingtækt. Segjum að svona breytingartillaga yrði samþykkt. Það eru engin lögskýringargögn, ekkert til. Eftir hverju ættu menn að fara? Ætti þá Hæstiréttur að kalla viðkomandi þingmann sem flutti breytingartillöguna og spyrja hvað hann meinti með þessu?