141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

dagskrá fundarins.

[13:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það var svolítið merkilegt að hlusta á hv. þm. Árna Þór Sigurðsson með efasemdir um fundarstjórn forseta og kannski falla í gryfju formlegheita en hafa síðan engar áhyggjur, akkúrat engar áhyggjur, af því sem hv. þm. Ólöf Nordal nefnir réttilega eiginlega tundurskeyti sent inn í umræðuna um stjórnarskrána. Það er verið að setja fram breytingartillögu og ekki með neinum lögskýringargögnum, ekki með neinu, í rauninni heildarstjórnarskrá af hálfu þingmanna Hreyfingarinnar og menn hafa akkúrat engar athugasemdir við það. Svo koma menn hingað og gera athugasemdir við fundarstjórn forseta, um það hvort áfram megi ræða fundarstjórnina, en gera engar athugasemdir við þetta alvarlega mál, það að menn eru gjörsamlega að brjóta, að mínu mati, gegn þeirri stjórnarskrá sem enn er við lýði, þar með talið að við fáum að minnsta kosti þrjár umræður til að fara djúpt ofan í málið.

Ég vek sérstaklega athygli á því að ég hef ekki enn þá fengið tækifæri við 2. umr. í þinginu til að ræða tillögu stjórnlagaráðsins, (Forseti hringir.) m.a. breytingartillöguna frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. Þetta er miklu alvarlegra en það (Forseti hringir.) hvernig hæstv. forseti hefur stýrt þinginu.