141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að líta svo á að slegið hafi verið á hina útréttu sáttarhönd en sjáum hverju fram vindur. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um túlkun á breytingarákvæðinu. Ég tel að núgildandi breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem rjúfa þurfi þing og efna til þingkosninga til þess að geta kvatt saman nýtt þing til að geta breytt stjórnarskránni og samþykkt þá þær breytingar sem hið fyrra þing hefur lagt til, leiði til þess að menn muni ekki taka sjálfstæða afstöðu til stjórnarskrárbreytinga. Menn eru þá um leið að kjósa flokka á Alþingi og munu heldur kjósa á grundvelli lífsskoðana sinna, afstöðu sinnar til skattamála, velferðarmála, utanríkispólitíkur og ESB, en að taka afstöðu til stjórnarskrárbreytinga.

Sú breytingarleið sem hér er lögð til opnar á þann möguleika að ekki þurfi að koma til þess að rjúfa þing til þess að þjóðin geti tekið afstöðu til stjórnarskrárbreytinga. Ég held að það hafi myndast tregi til þess að rjúfa þing svo hægt sé að kjósa nýtt þing til að hægt sé að greiða atkvæði um stjórnarskrá vegna þess að þegar menn eru komnir á Alþingi, t.d. sestir í ráðherrastól eins og hv. þingmaður getur vel lent í á næsta kjörtímabili, (Gripið fram í.) verði erfitt að rjúfa þing til að koma í gegn stjórnarskrárbreytingu og þá vilji menn láta kjörtímabilið líða og taka að svo loknu afstöðu til málsins á nýju þingi. Ég held að sá farvegur sé ekki til þess fallinn að við getum leyft þjóðinni að taka sjálfstæða ákvörðun til stjórnarskrárbreytinga og ég held að það muni sömuleiðis hægja verulega á ferlinu. Það er ekki svo langt í endamarkið og ef við tökum undir þá tillögu sem hér er lögð fram held ég að sá möguleiki opnist að breyta stjórnarskrá innan ekki svo langs tíma án þess að þurfa að rjúfa þing og boða til alþingiskosninga.