141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Ég minni á að þessi tillaga formanna flokkanna er mín tillaga útþynnt sem formenn tveggja flokka á Alþingi, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, fluttu og eins Björt framtíð. Hvernig stendur þá á því að það kemur breytingartillaga frá formönnum sömu þingflokka við tillögu eigin flokka? Hafa þeir ekki einingu innan þingflokka sinna til að koma sjálfir með þessa breytingartillögu eða vinna þetta sameiginlega? Eru þessir tveir flokkar svona sundurlyndir í eins stóru máli og stjórnarskráin er?

Ég er ekkert voðalega hrifinn af flokksræði en mér finnst mjög skrýtið að þegar formenn tveggja flokka flytja tillögu á Alþingi skuli formenn þingflokkanna koma með breytingartillögu við þá tillögu. Mér finnst það ekki beint dæmi um samstöðu.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann um þessi 25% mörk sem eru óskaplega lág að mínu mati. Menn ætla að sætta sig við það að fjórðungur þjóðarinnar standi að einhverri stjórnarskrá. Hvers lags samstaða er það? Það sem menn óttast greinilega er að það sé enginn áhugi hjá þjóðinni um stjórnarskrána sína. Menn halda að tiltölulega fáir tækju þátt í kosningunni og kannski allir sammála þannig að ef 30% taka þátt, hinir nenna þessu ekki, þurfa ekki nema 80–90% af þeim að segja já og þar með er komin ný stjórnarskrá fyrir landið.