141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir ræðu hans og á margan hátt ánægjulegt samstarf í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á undanförnum dögum. Þar ræddum við töluvert um breytingarákvæðið sem hér liggur fyrir og breytinguna á breytingarákvæðinu sem meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggur fram. Við ræddum hins vegar ekki í þeirri lotu um auðlindaákvæði. Ég velti fyrir mér, af því að ég sá tillögutexta varðandi auðlindaákvæðið fyrst í morgun, hvort ekki hefði komið til greina af hálfu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að taka þá breytingu sem nú kemur fram sem tillaga frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna og fleirum inn í starfið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd núna á dögunum, milli umræðna eins og annað.

Ég verð að játa að það kom mér nokkuð á óvart að sjá þessa breytingartillögu í ljósi þess að mér hafði skilist að málamiðlunartillaga formanna ríkisstjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar gengi út á að breyta bara breytingarákvæðinu. Þessi tillaga hins vegar er annars eðlis. Hún snýr auðvitað að efnisatriði sem er mikilvægt og sem margir hafa lýst vilja til að ná samstöðu um en hins vegar hefur ekki mikið verið gert til að leita samstöðu um þennan texta.