141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú háttar svo til að ekki er hægt að breyta stjórnarskrá nema á síðasta degi þingsins og það þarf staðfestingu aftur á næsta þingi.

Hv. þingmaður sagði að sér litist illa á þá hugmynd að hafa tvenns konar farveg fyrir breytingar á stjórnarskrá í stjórnarskránni sjálfri. Ég get tekið undir það að ákveðnu leyti, en ég vil vekja athygli á því að allar þær tillögur sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fengið og haft til umfjöllunar gera ráð fyrir því. Í fyrsta lagi gerði stjórnlagaráð upphaflega ráð fyrir því að tvenns konar farvegur yrði fyrir breytingar, annars vegar þingið sjálft og hins vegar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sérfræðinganefndin lagði til að ein leið væri til að breyta stjórnarskrá ef um væri að ræða mannréttindakaflann en önnur aðferð að öðru leyti. Feneyjanefndin fjallaði um þær tillögur, um tvö form, og gerði ekki athugasemdir.

Ég tek ekki undir það að það sé eitthvað erfitt að hafa þetta svona, sérstaklega ekki ef þetta er í tveimur greinum. Eins og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt til er einfalt að vísa til þess í heiti frumvarpsins til hvorrar greinarinnar verið er að vísa.