141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að geyma aðalumfjöllun um þingsályktunartillöguna þar til það mál kemur á dagskrá hér á eftir eða næstu daga, ég veit ekki hvernig það verður. Í tilefni af orðum hv. þingmanns vil ég segja að það er alveg rétt að þingsályktanir gilda þar til Alþingi hefur tekið ákvörðun um annað. Flestar þingsályktanir fela raunar í sér fyrirmæli frá Alþingi til ráðherra, til framkvæmdarvaldsins, um að gera hitt eða þetta. Þessi þingsályktunartillaga felur fyrst og fremst í sér, eftir því sem ég skil það, fyrirmæli til næsta þings um að haga framhaldi stjórnarskrármálsins með tilteknum hætti. Það er það sem ég tel að hafi harla lítið gildi, sérstaklega þegar við horfum fram á að næsta þing verður hugsanlega sett saman með allt öðrum hætti en það sem nú situr og afstaða til málsins verður trúlega allt önnur meðal þeirra þingmanna sem verða kjörnir 27. apríl en þeirra sem nú sitja. Það er auðvitað það sem breytir málinu.

Ef þingsályktunartillagan væri þannig orðuð og þannig fram sett að hún endurspeglaði breiða samstöðu hér í þinginu um málið mundi málið horfa öðruvísi við, þá væri (Forseti hringir.) meira gildi í henni. En inn í tillögutextann eru skrifaðar alls konar forsendur sem hv. þingmanni má vera ljóst að mjög margir í þessum sal (Forseti hringir.) munu aldrei geta skrifað undir.