141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það truflar alla vega mig að þingmenn, (Gripið fram í.) þeir sem flytja svona tillögu, geti valið um hvort eingöngu Alþingi fjalli um málið, þ.e. þingmenn, nýir og gamlir, eða þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann. Nú koma formenn flokkanna með breytingartillögu um auðlindaákvæðið sem töluvert mikill ágreiningur er um, þótt menn vilji allir setja það inn er mikill ágreiningur um það. Er það gert til þess að stöðva ferlið? Er það gert til þess að það náist örugglega ekki sátt í málinu? Tillaga formannanna er ekkert ólík til dæmis þeirri tillögu sem ég hef flutt.

Það er reyndar töluverður munur á 25% mörkum eða 50% mörkum. Ég hygg að tiltölulega auðvelt sé að breyta stjórnarskránni með 25% mörkum og ég fullyrði að það hefur verið gert æðioft sem er ekki gott. Ég held að það sé enginn sáttur við að nýr stjórnarmeirihluti geti breytt stjórnarskránni sisvona og það hvenær sem er innan kjörtímabilsins, geti látið ungliðahreyfingar flokkanna smala þannig að nægileg þátttaka náist, 25%, til að styðja eitthvert mál sem enginn hefur áhuga á. Ég held að það sé dálítið hættulegt.

Svo er það auðlindaákvæðið. Það stendur að auðlindir séu í sameign þjóðar og þá er það spurningin um hugtakið „þjóð“. Ég hef ekki heyrt einn einasta mann tala um það öðruvísi en sem ríki, þ.e. að fulltrúar ríkisins, ráðherrar og meiri hluti á Alþingi eiga að fara með það vald. Er þetta ekki bara ríkisvæðing á auðlindunum?