141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eitt sem ég vildi koma að í tilefni af orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, það varðar sjónarmið um auðlindaákvæði. Ég vil geta þess að þegar þessi mál bar á góma í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nefndum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að við teldum að unnt væri að nálgast málið t.d. á grundvelli tillagna sem komu frá stjórnlaganefnd á sínum tíma. Eins vísuðum við til eldri ákvæða þannig að það er ekki með öllu rétt að segja að engar tillögur hafi komið.

Síðan vildi ég líka rifja það upp að hv. þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram sitt orðalag að auðlindaákvæði nú á dögunum við frekar litlar undirtektir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, ekki síst af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þannig að þó að ekki hafi komið fram tillögur sem voru hv. þingmanni að skapi er ekki hægt að segja að ekki hafi komið fram neinar tillögur.