141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum farið mjög vel yfir allar þær tillögur sem fram hafa komið frá því um aldamót. Segja má að það hafi byrjað fyrir alvöru með tillögum auðlindanefndar árið 2000 þó að það eigi sér lengri sögu.

Það er alveg augljóst hvar ágreiningurinn liggur. Ekki hefur áður verið tekið með svo afgerandi hætti eins og gert er í þessu ákvæði, á þeim eignum ríkisins sem komið hefur verið fyrir í félögum með takmarkaða ábyrgð, hlutafélögum eins og Landsvirkjun. Kannski var það vegna þess að hlutafélagavæðing ríkisfélaga og -fyrirtækja var ekki hafin á þeim tíma sem auðlindanefndin fjallaði um málið. Það er í rauninni nýtt í þessum tillögum og ég veit ekki hver er afstaða hv. þingmanns eða flokks hans til þess sem þar segir. Ekki er litið á það sem eiginlega þjóðareign samkvæmt skilgreiningu þjóðareignar en engu að síður eru þær eignir undirorpnar sömu takmörkunum og gilda um þjóðareignina að hvorki megi framselja hana til varanlegra afnota né selja.

Hvar liggur ágreiningurinn? Jú, það er þessi spurning um þjóðareignina. Slagsmálin í orðræðunni í þingsal árið 2009 snerust m.a. um að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki hafa þetta orð „þjóðareign“ í ákvæðinu. Framsóknarflokkurinn gerði þá harða hríð að flokknum og talsmönnum hans fyrir að vilja það út en þykjast samt vilja, eins og þá var sagt, þjóðareign á auðlindum.

Hvað varðar tillögu Framsóknarflokksins, og það á líka við um tillögu frá auðlindanefndinni, þá snýst ágreiningurinn líka um það að því leyti sem snýr að óbeinum eignarrétti, sem menn vilja hafa inni, sem gæti myndast (Forseti hringir.) við nýtingarréttinn. Þar er ágreiningurinn; þjóðareignin og óbeini eignarrétturinn.