141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að þingmaðurinn skuli rifja upp þann hörmungarsvikatíma sem Framsóknarflokkurinn þurfti að ganga í gegnum rétt eftir hrunið þegar Framsóknarflokkurinn lýsti því yfir að hann skyldi verja Vinstri græna og Samfylkinguna falli, vegna þess að Samfylkingin og Vinstri grænir sviku allt það sem samið var um.

Hér er verið að rifja það upp að það hafi verið á stefnuskrá Framsóknarflokksins að fara fram með stjórnlagaþing. Við töluðum um, og það var stefnumál okkar, að fara á stað með bindandi stjórnlagaþing. Svo kom í ljós þegar farið var að vinna þessi mál að það var tæknilega og lögfræðilega ekki hægt. Þingmenn Framsóknarflokksins fóru út úr málinu þegar Hæstiréttur var búinn að úrskurða kosninguna ógilda til ráðgefandi stjórnlagaþings. Ríkisstjórnarflokkarnir völdu svo fulltrúa úr stjórnlagaþingskosningunni í stjórnlagaráð þótt Hæstiréttur væri búinn að ógilda kosninguna. Þá fór Framsóknarflokkurinn út úr þeim málum vegna þess að við verðum að fara eftir þeim prinsippum og reglum sem gilda í samfélaginu. Og vei þeirri ríkisstjórn sem fer á móti dómum Hæstaréttar. Við skulum rifja það upp að ríkisstjórnin hefur hlotið marga dóma á sínum ferli, alla vega þrjá, virðulegi forseti.

Þetta er því hálfaumt yfirklór. Þegar sagt er að skynsamlegt sé að breyta breytingarákvæðinu hafna ég því, því að ákvæðið hefur gefist vel. Fulltrúalýðræðið er í gildi hér á landi. Hv. þingmaður talar um að landsmenn komi ekki að því að kjósa sér nýja stjórnarskrá en alþingiskosningar felast í því að fólk gefur jáyrði sitt við nýrri stjórnarskrá þegar málin eru afgreidd í sátt í þinginu og nánast hver einasti þingmaður (Forseti hringir.) er samþykkur stjórnarskrárbreytingunum. Það er fyrsta skrefið, skref A, virðulegi forseti, svo koma þingkosningarnar. Þess vegna er sáttin svo mikilvæg í breytingarferlinu.