141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, það kemur ekki fram í 79. gr. að sátt skuli vera um stjórnarskrárbreytingar, en ég ætla að benda enn einu sinni á það hér að sáttin verður að vera til staðar svo stjórnarskrárfrumvarpið lifi af kosningu á nýju þingi eftir alþingiskosningar. Það er grunnurinn í öllu þessu máli. Þess vegna er málið komið í hnút í dag, á þessu kjörtímabili, vegna þess að ef gera á stjórnarskrárbreytingar verður að samþykkja þær á nýju þingi eftir alþingiskosningarnar sem fara eiga fram 27. apríl. Ríkisstjórnin sér fram á að nýtt þing muni ekki samþykkja þær breytingar sem hún hefur lagt til, enda er búið að ýta frumvarpinu til hliðar í heild sinni. Höfum þá röð alveg á hreinu.

Ég tel að það séu nokkur öfugmæli falin í máli hv. þingmanns þegar hann segir að sér finnist það skrýtið að beita eigi 79. gr. stjórnarskrárinnar um að rjúfa þing vegna stjórnarskrárbreytinga vegna þess að það hefur í fyrsta lagi aldrei verið gert. Málskotsréttur forsetans hafði heldur aldrei verið virkjaður fyrr en forsetinn virkjaði hann. Alþingi getur alltaf virkjað þá grein, en öfugmælin eru þau að fram kom í máli þingmannsins að þingið gæti ekki unnið að stjórnarskrárbreytingum vegna þess að það þyrfti á allri sinni orku að halda til að fjalla hér um heimili, atvinnuuppbyggingu og annað.

Hvað gerist á næsta þingi, verði það frumvarp sem nú er til umræðu að lögum, ef gera má stjórnarskrárbreytingar allt kjörtímabilið og vísa þeim svo bara í einhverja þjóðaratkvæðagreiðslu? Þingið verður undirlagt af þeim umræðum allt næsta kjörtímabil ef það verður að lögum, svo einfalt er það. Báðar leiðir hafa því þann ókost (Forseti hringir.) sem þingmaðurinn fór yfir. Þess vegna er happadrjúgt að breyta ekki breytingargrein stjórnarskrárinnar.