141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:15]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég er svolítið hissa á þessari spurningu — eða svo sem ekki, vegna þess að því hefur að sjálfsögðu verið haldið fram að þetta muni eyðileggja málið. Það er ekki ætlun mín að eyðileggja það. Ég vil fá atkvæðagreiðslu um það vegna þess að ég tel að Alþingi skuldi þjóðinni að gefa upp afstöðu sína í málinu. Kæmi til þess að málið yrði fellt í atkvæðagreiðslu gæti hver einasti þingmaður flutt málið aftur á næsta þingi. Ef ég verð þingmaður áfram mundi ég gera það. Það yrði það fyrsta sem ég mundi gera á næsta kjörtímabili, þ.e. að flytja málið aftur, koma því aftur á dagskrá.

Ég hef litið svo á að sú leið að breyta einungis breytingarákvæðinu sé neyðarúrræði. Ég hef verið flutningsmaður með þingmanninum á máli hans um að breyta breytingarákvæðinu núna í þrjú þing. Ástæðan fyrir því er að ég hef viljað baktryggja mig. Ég hef viljað hafa neyðarhnapp ef svo má að orði komast. En ég lít svo á að við þurfum ekki á honum að halda vegna þess að málið er fullbúið. En það hefur gengið mjög erfiðlega að fá að ræða það í þingsal sem segir manni ýmislegt um það hve mikil andstaða er við það að breyta stjórnarskránni, enda erum við hér að takast á, þetta er baráttan um Ísland, baráttan um auðlindirnar og um völdin. Og þingmenn eru vanhæfir til að setja sér reglur.