141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var merkileg yfirlýsing frá þingmanni sem hefur svarið eið að stjórnarskránni því að í henni stendur að alþingismenn séu stjórnarskrárgjafi. Það stendur í stjórnarskránni sem hv. þingmaður hefur svarið eið að. Hún ætlar sem sagt ekki að standa við núverandi stjórnarskrá, núgildandi stjórnarskrá. Ef ný stjórnarskrá kemur hvernig ætlast hún til þess að farið verði eftir henni ef meiningin er að fara ekki eftir núverandi stjórnarskrá? Í 79. gr. hennar stendur að Alþingi breyti stjórnarskránni.

Það eru mörg atriði órædd. Ég hef haft dálítið mikinn áhuga á Lögréttu. Það á að vera einhver smá nefndarklúbbur sem Alþingi sjálft kýs. Mér finnst það vera mjög rangt. Ég hef komið með fjölda tillagna um breytingar á stjórnarskrá sem ekki hafa verið ræddar, hvorki í plús né mínus. Enginn hefur sagt mér hvort þær séu góðar eða slæmar, ekki hv. þingmaður. Það er nefnilega allt of mikill biti að taka heila stjórnarskrá fyrir í einu, allt of mikill biti. Miklu skynsamlegra er að taka þetta í einhverjum köflum og það væri mögulegt ef tillaga formannanna næði fram að ganga. Ég vildi gjarnan hafa hærri þröskulda en 25%. Mér finnst það eiginlega vera niðurlæging fyrir stjórnarskrána ef 25% þjóðarinnar eiga að geta samþykkt nýja stjórnarskrá. Mér finnst það vera svo lélegt.

Ég fer ekki ofan af því að þessi snilli og klækir hv. þingmanns munu stöðva þetta mál, gætu stöðvað það í fjögur ár að stjórnarskránni verði ekkert breytt. Svo fara menn að ræða eitthvað allt annað en tillögur stjórnlagaráðs sem ég yrði í sjálfu sér — mér finnst margt í þeim mjög gott. Ég hefði gjarnan viljað sjá að þeirri vinnu sé ekki kastað á haugana.

Ég óttast því að breytingartillaga hv. þingmanns eyðileggi málið. Ég skora á hana að draga hana til baka.