141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Við vorum að hlusta hér á ræðu frá hæstv. innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni, ræðu sem að mínu mati var heiðarleg, hún var einlæg og mér fannst hún hugrökk. Það er ekki þar með sagt að ég sé sammála öllu því sem hann sagði, en mér fannst hann samt komast að kjarna málsins: Hvað er mögulegt og hvað ekki? Um leið var ræða hans algjör rassskelling á vinnubrögðum fráfarandi forustumanna stjórnarflokkanna. Þess þá heldur er erfið arfleifðin sem hinir nýju formenn, hvort sem það er hv. þm. Árni Páll Árnason eða hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, taka við af gömlu formönnunum sem enn þá eru leiðandi í ríkisstjórn. Mér fannst ræðan draga fram hversu mikil mistök hafa verið gerð varðandi verklagið og verkferlið í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Af hverju segi ég það? Meðal annars út frá þeim forsendum sem hæstv. innanríkisráðherra hefur komið inn á.

Við sjálfstæðismenn lögðumst gegn breytingum á sínum tíma, árið 2009, nema á ákveðnum sviðum. Við ræddum alltaf auðlindaákvæðið. Það er alltaf einhver klisja um að við sjálfstæðismenn viljum ekki breytingar á auðlindaákvæðinu. Ég vil benda á að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, lagði fram breytingar á auðlindaákvæði. Við töldum líka og ég sagði það margoft — og þá er ég komin að spurningunni — að ég vildi líka sjá ákveðnar breytingar á breytingarákvæðinu. Um leið segi ég: Þá verður í breytingarákvæðinu að gera miklar kröfur um það hvernig við stöndum að breytingum. Kosturinn við það fyrirkomulag sem við höfum núna er þátttaka fólksins í þingkosningum. Það er þess vegna sem allar stjórnarskrárbreytingar fram til þessa hafa haft öflugan meðbyr af því að við erum aldrei undir 80–85% þátttöku, sem er einstætt núna í vestrænni veröld, í alþingiskosningum. Það þýðir að það er um leið breiður stuðningur við stjórnarskrárbreytingar.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hann girðingarnar í tillögu og þessari ágætu tilraun nýju (Forseti hringir.) forustumannanna í Vinstri grænum og Samfylkingu og Bjartri framtíð (Forseti hringir.) vera nógu sterkar til að tryggja að það fari einmitt ekki einhver mál í gegn sem eru (Forseti hringir.) háð veðri og vindum hverju sinni? Það er að mínu mati hættulegt.