141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru þingmenn í þessum sal sem öskruðu á framsóknarmenn þegar þeir komu með sína tillögu að breytingarákvæði fyrir nokkrum dögum. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar hefur haft einstakt lag á því að standa fyrir ófriði allt þetta kjörtímabil um þetta mál, sáð gífurlegri tortryggni hér og úr því er núverandi formaður Samfylkingarinnar núna að reyna að vinna, en hann hlýtur að skilja að menn eru brenndir af þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann styðji það breytingarákvæði sem formaður þingflokks Samfylkingarinnar hefur lagt fram eins og það er. Er hann tilbúinn til að sjá það samþykkt óbreytt í stjórnarskrá Íslands? Eins og ég hef skilið opinbera umræðu er þarna býsna langt seilst, en er hann tilbúinn til að samþykkja það eins og það er og standa með því eins og það er, allt til enda?