141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að ljúka svarinu við fyrri athugasemdum hv. þingmanns vil ég fyrst segja að við í þingflokki Samfylkingarinnar viljum framgang þessa máls á þeim efnislegu forsendum sem lagt var upp með af hálfu formanns Samfylkingarinnar. Við viljum líka sjá auðlindaákvæðið verða að veruleika. Ég hef ekki séð, vegna þess að hv. þingmaður spyr um þetta tiltekna ákvæði, þá efnislegu gagnrýni sem veldur því að ég geti ekki samþykkt það. En ég ítreka það sem ég hef sagt áður að ég er til viðræðu um hvað sem er í því efni, mér finnst það málefnaleg skylda mín þegar við erum að reyna að brúa bil.

Hv. þingmaður talar um hvernig farið hefur verið með þetta mál á fyrri tíð og hún telur stöðuna erfiða í ljósi þess. Ég held að hv. þingmaður þurfi bara að treysta sér til þess, alveg eins og ég er að reyna að gera, að fara út á berangurinn og horfast í augu við stöðuna og segja: (Forseti hringir.) Eigum við ekki að byrja upp á nýtt, (Gripið fram í.) eigum við ekki að gera það á jákvæðum og uppbyggilegum forsendum, eigum við ekki treysta okkur til þess og hætta (Forseti hringir.) að atast í því sem aflaga kann að hafa farið í fortíðinni? Það er algjörlega ljóst (Forseti hringir.) að ég hef ekki verið að atyrða Framsóknarflokkinn fyrir hugmyndir þeirra. Þvert á móti (Forseti hringir.) hef ég lagt mig í líma við (Forseti hringir.) að reyna að finna það sem sameinar (Forseti hringir.) okkur frekar en það sem sundrar okkur. (Gripið fram í.)