141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Hart var sótt að hv. þm. Margréti Tryggvadóttur í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Mig langaði að benda þingmanninum á það sem kom fram í ræðu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur — hann hefði heyrt það ef hann hefði fylgst með — að ástæða þess að hún studdi tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals var sú að hún óttaðist einmitt að þingið gæti ekki klárað þetta mál.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki tilefni til þess, fyrst sáttaleiðin svokallaða er greinilega orðin að fjallabaksleið sem er ófær, og hvort honum finnist ekki skynsamlegt að setja stjórnarskrána í heild á dagskrá þannig að þingið geti sýnt hvort það hafi dug í sér til að klára málið eða ekki.