141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar við lögðum fram tillöguna um auðlindaákvæðið nú síðast þá var það svo sem ekki í fyrsta skipti sem við reyndum að miðla málum í þessum deilum um stjórnarskrána og benda á staðreyndir. Það er langt síðan, það eru margir mánuðir síðan við bentum á að menn þyrftu að fara að forgangsraða. Svo augljóst var þetta orðið í byrjun þessa árs að við sendum frá okkur sérstaka tilkynningu um að nú væri um að gera að nýta þann tíma sem eftir væri til þess að reyna að ná saman um auðlindaákvæði eins og hv. þingmaður segist vera tilbúinn í núna eftir að þingstörfum átti að vera lokið og til þess að ná að sammælast um aukið beint lýðræði. Þessu var ekki einu sinni svarað á meðan tími var til. Að vísu var hv. þingmaður ekki orðinn formaður Samfylkingarinnar þá og nálgunin á samráð varðandi stjórnarskrána hefur breyst töluvert á þeim tíma sem liðinn er síðan formannsskiptin urðu í Samfylkingunni. En verður ekki hv. þingmaður að sætta sig við það að hann varð formaður (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar of seint? Málið var fallið á tíma.