141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég réði því nú ekki nákvæmlega hvenær ég varð formaður Samfylkingarinnar en hitt get ég sagt alveg hreinskilnislega við hv. þingmann: Á morgun eru tvær vikur réttar frá því að við áttum fyrsta fund, formenn allra flokka, og ég og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir lögðum spilin algjörlega hreint á borðið með formönnum allra flokka, algjörlega. Aðdáendur klækjastjórnmála, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hér áðan, kalla þetta sögulegan afleik. Við settumst bara niður með formönnum allra flokka og sögðum hreint út hvað við vildum og buðum mönnum til opins og fordómalauss samstarfs. Það boð stendur enn.

Við hefðum getað nýtt tímann betur. Að sumu leyti er auðvitað um að kenna að tíminn hefur farið í varnarbaráttu gegn tundurskeytum hinna ýmsu kyrrstöðuafla sem hafa viljað koma í veg fyrir samninga en það er engin ástæða til að gefast upp. Menn hafa rætt um (Forseti hringir.) auðlindaákvæðið frá því árið 2000, það er 13 ára reynsla af umræðu um það. Ég sendi á hv. formenn (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eina hugmynd sem ég er tilbúinn að ræða. Það er hægt að fara í aðra útfærslu. (Forseti hringir.) Við höfum alveg tíma til að ljúka þessu máli hér á næstu dögum.