141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr af hverju ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign hafi ekki komið með tillögum formanna um breytingarákvæðið og framhald málsins inn í næsta kjörtímabil. Það er einfaldlega vegna þess að búið var að ganga frá því máli og verið var að ræða um auðlindaákvæðið við t.d. Framsóknarflokkinn sem hafði gefið ályktanir á landsfundi sínum. Við vorum að gera okkur vonir um að einnig væri hægt að lenda því ákvæði. Ljóst var að svo var ekki, grundvallaratriðin stóðu enn þá út af. Um helgina til dæmis sendi formaður Samfylkingarinnar umræðugrundvöll á alla formenn stjórnarandstöðunnar til að ræða og hefur ekki fengið mikil viðbrögð. Eins og formaður Samfylkingarinnar sagði fyrr í dag standa allar dyr opnar og við erum tilbúin til að ræða málefnið en viljum draga fram stóru línurnar í málinu sem hefur verið rætt í svo langan tíma og svo ítarlega. Við flutningsmenn teljum ásamt þingflokkum okkar að tími sé kominn til að kveða upp úr um hvernig þingmenn vilja greiða atkvæði. Það er ástæðan.

Varðandi þjóðareignina er það ákaflega vel útskýrt og því er svarað í greinargerð með tillögunni sem ég fór mjög vel yfir áðan. Það er þjóðareignarréttur sem felur í sér eignarrétt til hliðar við hinn hefðbundna (Forseti hringir.) séreignarrétt einstaklinga og lögaðila. Það er því sama skilgreining og í tillögunni frá árinu 2000.