141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Í fyrsta lagi held ég að nauðsynlegt sé að taka fram að þær viðræður sem hv. þingmaður talar mjög um milli formanna stjórnarflokkanna og þingflokksformanna eru ekki eins miklar að mínu mati, ég kannast í það minnsta ekki við það.

Síðan vil ég koma því á framfæri að 21. janúar lagði þingflokkur framsóknarmanna til að farið yrði að ræða nokkur ákvæði stjórnarskrárinnar, m.a. auðlindaákvæði. Því var vitanlega ekki svarað sem kom ekki á óvart. Við lögðum síðan fram tillögu byggða á niðurstöðu auðlindanefndar árið 2000 sem allir flokkar stóðu að á þeim tíma, ef ég man rétt. Það vakti svo sem ekki mikla lukku en vakti engu að síður athygli víða annars staðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi heyrt rétt. Er sú breytingartillaga sem hv. þingmaður er á, ásamt fleirum, á einhvern hátt í samræmi við þá tillögu sem formaður Samfylkingarinnar sendi á formenn stjórnarandstöðuflokkanna? Ég er búinn að lesa þá tillögu og verð að segja að ég er ekki á alveg á sömu blaðsíðu og hv. þingmaður þegar kemur að því.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort breytingartillaga hennar og nokkurra annarra sé meira í samræmi við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október en einhverjar aðrar tillögur sem hafa verið lagðar fram eða viðraðar, þar á meðal tillögu framsóknarmanna og hv. þm. Árna Páls Árnasonar formanns Samfylkingarinnar. Er sú tillaga eitthvað meira í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort á einhvern hátt sé verið að leysa ágreining sem er uppi um eignarrétt á auðlindum með tillögunni. Er tillagan til þess fallin að leysa ágreining sem hefur verið uppi um mögulegan eignarrétt á auðlindum?

Í fjórða lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvaða auðlindir eru að hennar mati (Forseti hringir.) í einkaeign.