141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem koma til með að greiða þessari tillögu atkvæði sitt, komist hún einhvern tíma til atkvæða, eru þar með að leggja til að það fulltrúalýðræði sem við búum við verði afnumið vegna þess að þegar landsmenn kjósa í alþingiskosningum þegar stjórnarskrárbreytingar eru í farvatninu eru þeir jafnframt að kjósa um stjórnarskrárbreytingar.

Ólafur Jóhannesson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, talaði um í inngangi sínum að Stjórnskipunarrétti, því merka riti, að stjórnarskráin mætti hvorki verða nátttröll né taka mið af veðrabrigðum. Þar á hann við að stjórnarskráin eigi ekki að vera svo óumbreytanleg að hún breytist í nátttröll eins og hefur sannast á umliðnum árum, það hafa komið margar mikilvægar breytingar inn í stjórnarskrána og um þær verið fjallað í þinginu í sátt, en hún má heldur ekki vera þannig að það sé svo auðvelt að breyta henni að það minni helst á veðrabrigði, að hér hvessi að norðan og þá sé hægt að breyta stjórnarskránni. Eins og núverandi ríkisstjórnarflokkar fóru fram með, (Gripið fram í.) þeir ætluðu að breyta stjórnarskránni, setja Íslandi stjórnarskrá, stjórnarskrá Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það sitjum við uppi með núna og þess vegna er málið komið í öngstræti.

Það verður að ríkja sátt í þinginu um stjórnarskrárbreytingar af því að við búum við fulltrúalýðræði. Það er sáttin sem skiptir máli því að þá kýs þjóðin nýja stjórnarskrá í þingkosningum og nýtt þing verður að samþykkja frumvarpið óbreytt.

Virðulegi forseti. Þetta er svo ótrúlega einfalt en það virðist vera svo óskaplega langt inn á þessar staðreyndir hjá ríkisstjórnarflokkunum og þeim litlu flokkum sem styðja ríkisstjórnina í þessum málum að það er eiginlega algjörlega ómögulegt að útskýra hvernig málum er háttað og hvernig þeim er komið fyrir. (Forseti hringir.) Nei, nú er lagt til að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar út af því að ríkisstjórnarflokkarnir komust ekki með í gegnum þingið frumvarpið sem þeir lögðu sjálfir fram fyrr í vor. Þetta eru ekki vinnubrögð sem hægt er að bjóða þjóðþingi.