141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get með ánægju brugðist við þessum spurningum hv. þingmanns. Vegna þeirrar athugasemdar sem hann gerir við það að formenn flokkanna hafi lagt fram sína tillögu og síðan komi þingflokksformenn og tveir óbreyttir þingmenn, eins og ég og hv. þm. Skúli Helgason, og leggjum fram aðra tillögu, hv. þingmaður segir að það segi honum að misklíð sé um málið, vil ég segja: Það kann vel að vera að það væri merki um það ef í hlut ætti þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. (PHB: Hví?) — Nú, þingmaðurinn hlýtur að vera að tala af eigin reynslu, það getur ekki verið annað. En það á ekki við í þingflokkum stjórnarflokkanna, um þetta hvort tveggja hefur verið prýðilega góð sátt.

Hv. þingmaður segir að ef tillaga okkar um náttúruauðlindagreinina yrði samþykkt fengi þjóðin ekki að kjósa um hana. Sannleikurinn er sá að þjóðin er búin að kjósa um hana. Hún kaus um hana 20. október. (PHB: Ekki svona.) — Ekki svona? Hún kaus um efnisatriði í þessari grein í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október með yfirgnæfandi meiri hluta, (PHB: Ekki bindandi.) yfirgnæfandi meiri hluta í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem þingið á að taka mark á.

Svo spyr hv. þingmaður hvort ég muni greiða atkvæði með breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadótttur og við því er mjög einfalt svar. Nei, ég mun ekki gera það. Ástæðan fyrir því að ég stend hér að breytingartillögu, ásamt þingmönnunum Oddnýju G. Harðardóttur, Álfheiði Ingadóttur og Skúla Helgasyni, um að taka sérstakt ákvæði um auðlindir í þjóðareigu inn í stjórnarskrána, er sú að við teljum ekki raunsætt að afgreiða stjórnarskrármálið það sem eftir lifir þessa þings nema með einhverjum slíkum hætti. Þess vegna mun ég ekki greiða atkvæði með tillögu Margrétar Tryggvadóttur þó að ekki sé þar með sagt að ég sé ekki sammála meira og minna öllu sem í henni er. Það er vegna þess að ég tel að það sé ekki raunsætt að afgreiða málið á þann veg sem þar er lagt til.

Það er mikill munur á því að koma með breytingartillögu, eins og hún gerir, við fyrirliggjandi frumvarp (Forseti hringir.) sem felur í sér heilt lagafrumvarp um nýja stjórnarskrá (Forseti hringir.) og því sem við gerum hér með breytingartillögu sem fer inn í gildandi stjórnarskrá.