141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:36]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég get ekki verið honum sammála um að þetta setji fleyg í málið enda legg ég þessa tillögu fram. En spurningin er áhugaverð og það er hárrétt að þetta er sáttatillaga sem formennirnir þrír lögðu fram til að tryggja málinu framgang inn á næsta þing og ég styð hana heils hugar. Þetta er hins vegar ekki afrakstur af þeirri miklu efnisvinnu sem unnin hefur verið varðandi breytingar á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili. Mér finnst við sýna þessu ferli mesta virðingu með því að taka það ákvæði sem naut mests fylgis í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október — við vitum öll að allir flokkar hafa verið með auðlindaákvæði á stefnuskrá til lengri eða skemmri tíma, að koma því inn í stjórnarskrána. Ég tel að þetta ákvæði sé orðið það þroskað, og við séum svo nálægt því að ná saman um lendingu sem menn geti fellt sig við, að við eigum að nýta það tækifæri sem nú gefst til að leysa þetta mikla deilumál á milli flokkanna í gegnum árin með hagsmuni almennings í huga.

Allir flokkar hafa verið að leggja eitthvað til málsins. Sjálfstæðismenn hafa bent á tillögu stjórnlaganefndar. Þar er margt nýtilegt eins og ég nefndi í ræðu minni, framsóknarmenn hafa bent á auðlindanefndartillöguna frá 2000, sömuleiðis er þar margt nýtilegt. Það eru hlutir í báðum sem ég er ósammála sem ég mundi leggja áherslu á að yrði breytt og við leggjum fram á móti þessa tillögu sem aðrir kunna að hafa athugasemdir við. Ég tel að þetta sé samt, þegar allt er samantekið, grunnur sem hægt er að vinna úr eina tillögu sem allir eiga að geta náð saman um.