141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin en það er eitt sem mig langar að gera athugasemdir við sem snýr að því að þeirri tillögu sem hv. þingmaður er flutningsmaður að, sem er um auðlindaákvæðið. Sú tillaga ein og sér var ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur var þjóðin spurð hvort hún vildi hafa ákvæði um auðlindirnar í stjórnarskránni. Um það eru allir sammála. Hver sem er hefði getað komið með sitt auðlindaákvæði og sagt: Jú, það er búið að kjósa um þetta og þjóðin vill hafa auðlindaákvæði í stjórnarskránni. Þetta ákvæði var ekki útfært og þess vegna hræðist ég dálítið og skal vera hreinskilinn með það — við vitum af breytingartillögu frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur þar sem stjórnarskráin er bara öll sett inn sem ein breytingartillaga — að þetta dagi uppi. Í raun er ekkert sem útilokar að við 3. umr. kæmu tvær til þrjár breytingartillögur til viðbótar frá þingmönnum stjórnarflokkanna og þá er málið í upplausn að mínu viti. Ég hræðist það mjög mikið fyrst þetta skref er stigið.

Kallað hefur verið eftir því allt kjörtímabilið, til dæmis af hálfu þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að taka ákveðna breytingartillögu til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu, kallað hefur verið eftir því í fjögur ár — taka minni afmarkaða kafla, fjalla um þá og reyna að ná niðurstöðu. Síðan kemur þessi tillaga inn í þingið, án þess að hafa verið rædd efnislega í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd heldur bara hjá meiri hlutanum, sem breytingartillaga við þetta frumvarp eftir að búið á að vera að slíta þingstörfum. Þess vegna setur maður stórt spurningarmerki við þetta.

Þetta er mín skoðun, ég hræðist það. Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér í því, en ég hræðist mjög mikið að þetta setji ákveðinn fleyg í málið og verði jafnvel til að stoppa það. Það er mín skoðun að sú hætta sé klárlega fyrir hendi.