141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[22:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þessi tvenns konar afstaða sem þingmaðurinn lýsir fari algerlega saman. Málið mun ekki ganga til enda, stóra stjórnarskrármálið, að öllum líkindum vegna þess að málþófi er hótað út kjörtímabilið og það að það sé fallið á tíma er auðvitað af því að það kom ekki fram fyrr en það seint að það er hægt að tala út kjörtímabilið til að drepa það.

Á hinu má svo hafa skilning, að það séu fjölmörg atriði af því að það er miklu flóknara mál en auðlindaákvæðið sem ýmsir vildu hafa meiri tíma til að ræða eða melta. Það breytir ekki því að þetta frumvarp hefur verið lengur í smíðum en flest stjórnarskrárfrumvörp sem orðið hafa að lögum í löndum sem við berum okkur iðulega saman við. Hér er engin sérstök skemmri skírn eða flýtimeðferð á stjórnarskrá miðað við það sem gengur bara og gerist í heiminum.

Hitt er svo algerlega skýrt að auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands er löngu fullrætt. Um það þarf ekkert meira að segja. Um það hafa verið skipaðar endalausar nefndir, um það hafa verið haldnir endalausir fundir milli stjórnmálaflokkanna í 13 ár og ef stjórnmálaflokkarnir á Íslandi geta ekki í einfaldri atkvæðagreiðslu leitt mál til lykta, einfalt og afmarkað mál eins og þjóðareign á auðlindum, eftir að hafa rætt um það í 13 ár, og þingmenn ætla að halda því fram að þeir þurfi viku eftir viku allt fram til kosninga til að halda áfram að ræða það sem þeir hafa rætt í 13 ár og fyrir liggja öll lögfræðiálit í heimi um það er það auðvitað bara yfirskin. Það er þá bara yfirskin og hræsni af þeirra hálfu (Forseti hringir.) sem eru að verja hagsmuni en þora ekki að gangast við því.