141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[23:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir innlegg hennar í umræðuna um stjórnarskrána. Ég vil samt gera athugasemdir við þau orð hennar að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi sömu skoðun bæði á stjórnarskránni og í sjávarútvegsmálum. Ég tel að hv. þingmaður átti sig vel á þeim mikla mun sem er í raun á milli þessara flokka í báðum málunum og við höfum bent á það ítrekað í umræðunni.

Við framsóknarmenn lögðum á sínum tíma til að farið yrði í þá aðgerð að stofna til stjórnlagaþings. Við nefndum að það væri sérstaklega mikilvægt til að efla Alþingi svo ekki sé minnst á að við munum kannski í kjölfarið geta tekið meiri og betri umræðu um einstök mál, þ.e. að hin efnislega umræða geti farið fram.

Ég var sammála því á sínum tíma að stofna stjórnlagaráð og það var sett með því skilyrði að hin efnislega umræða færi fram á Alþingi í kjölfarið. Ég spyr hv. þingmann af hverju núverandi ríkisstjórn hafi ekki staðið við það samkomulag sem var gert á þeim tíma, að sú afurð sem kæmi frá stjórnlagaráðinu yrði tekin til efnislegrar umræðu á þingi en ekki farin sú leið sem Hreyfingin lagði til og spurt í þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök atriði eins og ríkisstjórnin gerði á sínum tíma. Ég tel nefnilega að þar hafi málið ónýst, því miður, og það sé þess vegna sem við stöndum frammi fyrir því á síðustu metrunum, það er reyndar komið fram yfir síðasta söludag, að við erum að ræða hér um (Forseti hringir.) hina mikilvægu stjórnarskrá.