141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[23:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér varð það ljóst fyrir þó nokkuð löngu síðan að mælikvarði stjórnarliða á hvað væri vel unnið, málefnalega og efnislega er ekki sá sami og hjá mér. Því var til dæmis ítrekað haldið fram í Icesave-málinu að þar hefðu vinnubrögðin verið með þvílíkum ágætum að annað eins hefði ekki sést í manna minnum. Nóg um það, ég ætla ekki að bæta því hér inn.

Það var erfitt skref þegar ákveðið var á Alþingi að stofna til stjórnlagaráðs en nauðsynlegt að mínu mati vegna þess að ég hef talið að það þyrfti að breyta íslensku stjórnarskránni. Ég hef alltaf sagt það. Það var sett sem skilyrði að þær tillögur sem kæmu frá stjórnlagaráðinu yrðu teknar til efnislegrar meðferðar strax og þær kæmu frá því ágæta ráði, því fólki sem þar sat. Það var ekki gert og um það hljótum við hv. þingmaður að geta verið sammála.

Það var hins vegar ákveðið að kröfu Hreyfingarinnar að fara með málið í hina svokölluðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar tel ég að málið hafi ónýst vegna þess að málinu var stillt þannig upp hvort fólk vildi leggja til grundvallar núverandi stjórnarskrá eða þá stjórnarskrá sem stjórnlagaráð lagði til. Ég veit vel að hv. þingmaður er það vel meinandi og það góðum gáfum gædd að hún getur efnislega vel sett sig inn í mál og veit að sérhver orðalagsbreyting þarfnast margra daga og vikna yfirlegu (Forseti hringir.) vegna þess að eitt lítið orð getur breytt réttarástandi sem hefur verið á Íslandi (Forseti hringir.) í tugi ára.