141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[23:16]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Hér hefur verið fróðleg umræða í dag um þetta mikilvæga mál sem snertir okkur öll. Ég ætla að byrja á því sama og ég hef byrjað aðrar ræður sem varða stjórnarskrána vegna þess að ég held að það sé það sem við eigum að hafa að leiðarljósi. Gamalt máltæki segir að góð vísa sé aldrei of oft kveðin. Við verðum að notast við þau vinnubrögð þegar verið er að tala um stjórnarskrána að leitast sé við að ná sem víðtækastri sátt um alla vinnu í kringum hana og að sem flestir komi að þeirri vinnu.

Við höfum fengið fregnir af því að í Ungverjalandi hafi stjórnarskránni verið breytt fjórum sinnum á síðustu 14 mánuðum og um það ríkja miklar deilur. Það er gríðarlega mikilvægt að til þess að stjórnmálaástand og annað hér sé stöðugt náist víðtæk sátt um stjórnarskrá og stjórnarskrárbreytingar. Það kann að leiða til þess að ekki fái allir fram það sem þeir vilja. Það kann líka að leiða til þess að breytingar á stjórnarskrá gerist eitthvað hraðar en einhverjir vilja en um þær skapast þó breiðari samstaða og sátt. Ég held að það sé lykilatriði í allri hugsun þegar kemur að breytingum á stjórnarskránni vegna þess, og það er það sem skiptir öllu máli, að þetta er ekki stjórnarskrá einstakra stjórnmálaflokka, einstakra þingmanna, þetta er stjórnarskrá okkar allra. Þetta eru grundvallarleikreglur allra óháð því hvaða pólitísku skoðanir þeir hafa frá degi til dags á einstökum viðfangsefnum sem við glímum við í þinginu og úti í samfélaginu á málum sem skiptar skoðanir eru um.

Því miður hefur verið allt of mikið um það í tengslum við breytingar á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili að þeirri hugsun hefur ekki verið haldið nægilega hátt á lofti. Við verðum vör við það núna, í það minnsta í ræðum sem nýir formenn, hv. þm. Árni Páll Árnason og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, hafa haldið, að talað er fyrir því að taka upp önnur vinnubrögð hvað þetta snertir. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði í dag eftir ræðu sína að nú ættum við að byrja upp á nýtt og að nú ættu allir að koma að borðinu og kalla eftir sátt, óháð því hvað gerst hefði á kjörtímabilinu.

Sú hugarfarsbreyting má þó ekki verða miklu seinna en núna því að kjörtímabilið er að verða búið og við erum komin út fyrir þá starfsáætlun sem þingið á að starfa eftir. Eins og fram kom í umræðum í dag er það því miður svo varðandi breytingar á stjórnarskránni að forustuskipti hafa orðið of seint í stjórnarflokkunum. Þessi skoðanaskipti fóru fram fyrr í dag á milli þingmanna stjórnarandstöðu og stjórnarliðsins. Þegar við erum komin fram yfir starfsáætlun þingsins er dálítið seint að ætla að byrja upp á nýtt og ætla jafnvel að klára öll eða einstök mál út frá því.

En það er ekki eins og ekki hafi verið fullur vilji til þess að koma á breytingum á einstökum málum en það er töluvert langt síðan margir innan þingsins áttuðu sig á því að málið mundi ekki fara í gegn í heild sinni, þ.e. stjórnarskráin og allar stjórnarskrárbreytingarnar. Þeir töldu að gerðar væru allt of margar athugasemdir við stjórnarskrárbreytingarnar og að enn væri allt of mikið af óljósum atriðum því að mikilvægt væri að ná sátt um breytingar á stjórnarskránni.

Ríkisstjórnin missti á einhverjum tímapunkti sjónar á mikilvægi sáttar í málinu, að um það ríkti breið samstaða. Hún leitaði síðan samráðs við aðra flokka á síðustu dögum þingsins. Í tengslum við það mál í upphafi þessa mánaðar ítrekaði Framsóknarflokkurinn vilja sinn til að koma að slíkri vinnu, eins og við höfum reyndar gert áður. Við höfum sagt að málið væri að einhverju leyti fallið á tíma til að geta afgreitt það í heild sinni, en við höfum lýst yfir fullum vilja í töluvert langan tíma til að menn settust niður og ræddu sérstaklega tvö atriði, annars vegar auðlindaákvæði í stjórnarskrá og hins vegar beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur. En við í Framsóknarflokknum höfum sagt að við viljum tryggja í breytingartillögum um stjórnarskrá að að farið verði mjög varlega í breytingar á samstöðuákvæði í stjórnarskránni sem tryggir að um stjórnarskrárbreytingar ríki sátt, einkum og sér í lagi vegna mikilvægis þess að víðtæk sátt ríki í samfélaginu milli ólíkra aðila því að hér er um að ræða stjórnarskrá allra Íslendinga.

Í tengslum við það þegar talað var um að taka einstakar tillögur út fyrir og sagt að ekki væri hægt að klára málið lagði Framsóknarflokkurinn það til þann 6. mars að við mundum skoða það sem sneri að auðlindum, að þjóðareign. Við mundum reyna að setjast yfir það þvert á flokka því að eftir skoðanakönnunum að dæma munu verða miklar breytingar í þinginu eftir kosningar. Það liggur ljóst fyrir að breytingar á stjórnarskrá þarf að samþykkja á tveimur þingum til að þær geti orðið að veruleika. Maður skyldi ætla að eðli málsins samkvæmt hefðu menn verið fyrr tilbúnir til sátta hvað ákveðin atriði snertir. Við lögðum til að menn settust yfir auðlindaákvæðið og reyndu að ná um það víðtækri sátt. Við bentum m.a. á að árið 2000 hefði þverpólitísk nefnd, sem margir flokksfélagar ríkisstjórnarflokkanna áttu sæti í, komist að niðurstöðu um auðlindaákvæði. Við kölluðum eftir því þegar við lögðum fram tillögur að auðlindaákvæði að menn settust yfir þau mál og skoðuðu báðar tillögurnar. Þegar við lögðum til sátt varðandi auðlindaákvæðið létum við auðlindaákvæði nefndarinnar frá árinu 2000 fylgja með til þess að sýna fram á að það er mögulegt að ná víðtækri sátt um svona stór mál. Við lögðum til að menn settust yfir þessi mál bæði í ræðu og riti og víðar og reyndu að ná um þau víðtækri sátt.

Því var auðvitað mætt af andstöðu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Þegar boðist var til að ræða þessi mál var því mætt með greinaskrifum, með umræðum í þingsal o.s.frv. (Gripið fram í.) Síðan hafa dagarnir liðið. Tíminn hefur hlaupið frá okkur, hann vinnur svo sannarlega ekki með okkur í því að ná fram víðtækri sátt um breytingu á auðlindaákvæðinu. Það er mikilvægt að menn fari þá að setjast yfir það. Framsóknarflokkurinn hefur lýst sig fyllilega reiðubúinn til að setjast yfir þau mál. Þegar málið var til umfjöllunar í þinginu var því vísað til undirnefnda þingsins, m.a. til umhverfis- og samgöngunefndar. Það er sú nefnd sem sá er hér stendur á aðild að. Í ljósi þeirrar umfjöllunar sem þar var og eins í atvinnuveganefnd lögðum við framsóknarmenn til að inni í auðlindaákvæði yrði tryggð ein setning sem við teljum að sé gríðarlega mikilvæg, þar sem talað er um auðlindir í þjóðareign. Í öllum tillögum þar sem menn hafa talað um auðlindaákvæði, hvort sem það var árið 2000 eða núna í tillögu sem nokkrir þingmenn ríkisstjórnarliðsins hafa lagt fram, er gert ráð fyrir því eðli málsins samkvæmt að handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar. Svo segir í tillögu hv. þingmanna Oddnýjar G. Harðardóttur, Álfheiðar Ingadóttur, Árna Þórs Sigurðssonar og Skúla Helgasonar. Í auðlindatillögunni frá árinu 2000 segir einnig að handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar, sem er nákvæmlega sama orðalag og í fyrirliggjandi tillögu.

Við lögðum til, og gerðum það m.a. eftir að hafa ráðfært okkur við m.a. þá aðila sem komu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd, atvinnuveganefnd og fleiri nefndir meðan málið var þar í vinnslu, að inn í það yrði bætt setningu, þ.e. ákvæði um að óheimilt væri að framselja ríkisvald vegna auðlinda í þjóðareign til alþjóðlegra stofnana. Það er nefnilega gert ráð fyrir því í þessum tillögum að löggjafar- og framkvæmdarvald fari með umsjá auðlinda í þjóðareign og í stóru tillögunni sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur lagt fram sem eina breytingartillögu við skjalið, er gert ráð fyrir því annars staðar í grein að með einföldum þjóðaratkvæðagreiðslum sé heimilt að framselja ríkisvald eða löggjafarvald yfir einstökum þáttum. Við viljum einfaldlega tryggja það með skýrri setningu í ákvæði um auðlindir um þjóðareign að það sé með öllu óheimilt að framselja yfirráð yfir þessum auðlindum til alþjóðlegra stofnana. Af hverju segjum við það? Jú, vegna þess að ekki er nóg að tala um mikilvægi þess að auðlindir séu í þjóðareign eins og sjávarauðlindin og aðrar auðlindir þegar löggjafar- og framkvæmdarvaldið, sem á að hafa yfirráð yfir auðlindunum, veltir því jafnvel fyrir sér í hinu orðinu að framselja yfirráð yfir þessum auðlindum til síðan alþjóðlegra stofnana.

Ég get tekið dæmi sem við þekkjum mörg hver, þ.e. makrílstofninn sem skilar okkur Íslendingum gríðarlegum tekjum núna. Hafið er mikil auðlind sem og makríllinn, hann skilar okkur gríðarlegum tekjum, en við viljum tryggja að ekki sé mögulegt að framselja yfirráðin yfir þeirri þjóðarauðlind sem makríllinn er til alþjóðlegra stofnana. Hann er auðlind þjóðarinnar, hann hlýtur að vera eitt af því sem við skilgreinum sem auðlind í þjóðareign. Ef við viljum að auðlind sé í þjóðareign og að við getum ráðstafað henni, að ríkisvaldið, löggjafarvaldið á Íslandi, Alþingi Íslendinga, geti ráðstafað yfirráðum yfir þeirri auðlind, þá hlýtur það líka að vera mikilvægt að við tryggjum með stjórnarskrárbreytingum að ekki sé mögulegt með hinni hendinni að framselja þessi yfirráð yfir auðlindinni til erlendra aðila, samanber 2. gr. Hugmyndin á bak við það hlýtur að vera að þetta séu auðlindir í þjóðareign Íslendinga en ekki auðlindir í þjóðareign Evrópubúa eða hvernig sem heimsmyndin kann að þróast. Við teljum að með því að setja inn setningu eins og þá sem ég las hér að framan inn í slíka auðlindaákvæðistillögu munum við tryggja að þessar auðlindir verði raunverulega þjóðareign. Ég vil taka það fram að við höfðum mikið samráð við aðila sem komu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd, atvinnuveganefnd varðandi þá setningu, og einnig við menn sem eru mjög virtir á sviði stjórnskipunarréttar. Við teljum mjög mikilvægt að slík setning fari inn í stjórnarskrá.

Þá kemur ugglaust að því að þeir sem mikið hafa talað fyrir auðlindum í þjóðareign eru kannski ekki tilbúnir að ráðast í þá vegferð. Þá verður pólitískur ágreiningur um það í þinginu að setja auðlindir í þjóðareign, það get ég sagt hér. Það verður ágreiningur um að setja inn ákvæði um auðlindir í þjóðareign ef menn eru ekki tilbúnir til að tryggja að yfirráðin yfir auðlindunum verði ekki undir nokkrum kringumstæðum framseldar úr landi. Ég held að mögulegt sé að ná sátt um önnur ákvæði hvað það snertir. Mikill áróður fór í gang gegn Framsóknarflokknum þegar hann lagði til að menn ræddu saman um auðlindaákvæðið og lagði til tillögurnar frá árinu 2000, ekki vegna þess að það væri eitthvað sérstakt þar, heldur til að skapa umræðugrunn, til að menn færu yfir málin og ræddu þau sín á milli, þ.e. tillögurnar til að reyna að ná víðtækri sátt um málið. En við erum ekki tilbúin að víkja frá því að girt verði fyrir það að auðlindirnar séu síðan framseldar til erlendra aðila af löggjafar- og framkvæmdarvaldi. Þá verður pólitískur ágreiningur um málið og þá munu framsóknarmenn ekki verða tilbúnir til að setja auðlindir í þjóðareign með þeim hætti sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja því að auðlindir í þjóðareign eiga að vera eign íslensku þjóðarinnar. Auðlindir, eins og t.d. makríllinn sem syndir inn í íslenska lögsögu, eiga ekki að vera í sameiginlegri eign til að mynda aðildarríkja Evrópusambandsins. Þeir sérfræðingar sem við ræddum við á sviði stjórnarskipunarréttar hafa sagt að mikilvægt sé til að tryggja að það fari inn í ákvæði um auðlindir til að taka af allan vafa um að það sé ekki heimilt.

Það hefur líka vakið athygli í dag að ýmsir hafa ekki verið tilbúnir að svara því með óyggjandi hætti hvort þeir muni styðja breytingartillögu þá er liggur hér fyrir frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. Tillagan snýr að því að breyta frumvarpinu þannig að við ræðum um málið í heild sinni. Annaðhvort ræða menn um einstök atriði eða um málið í heild sinni. Ef hér er umræða um málið í heild sinni, sem eðlilegt er vegna þess að rætt er um breytingartillögurnar, er full ástæða til að ræða aðra kafla. Þá hef ég fullan hug á því að fara yfir ákveðin atriði sem m.a. var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar og snúa að sveitarstjórnarmálum. Ég hef áhuga á því að ræða málefni sem snúa að fullveldisframsalinu almennt og hvernig það er upp sett og eins þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem var á sínum tíma. Ég tel einnig að full ástæða sé til að gagnrýna það að þjóðin hafi ekki verið spurð að því hvort hún vildi heimila fullveldisframsal. Ég held að staðreyndin sé sú að það séu mjög sterk sjónarmið í samfélaginu. Það er ekki vilji til þess hjá mörgu fólki og stórum hluta Íslendinga til að auka fullveldisframsal meira en orðið er. Við þurfum ekki að fara langt til að sjá gagnrýnina sem komið hefur á það. Menn hafa talað um að auka eigi fullveldisframsal m.a. vegna EES-samningsins, en staðreyndin er auðvitað sú að ef við förum til nágrannalanda okkar, eins og til að mynda Noregs, þá hafa umræður þar almennt þróast yfir í aukna andstöðu við EES-samninginn sem slíkan, þ.e. þann þátt sem snýr að fullveldisafsali EES-samningsins.

Nýlega kom út skýrsla í Noregi þar sem farið var yfir þessi mál, fullveldisafsalsmálin, því að grunnurinn að því að tryggja fullveldi þjóðarinnar er m.a. í stjórnarskránni. Ég held að sú umræða eigi eftir að þróast mikið í Noregi á næstu árum og það liggur algerlega ljóst fyrir að sú umræða sem er um þessi mál á Íslandi virðist vera byggð á allt öðrum grunni en í Noregi. Hér tala margir hverjir um að við séum að afsala okkur svo miklu fullveldi út af EES-samningnum og þess vegna verðum við að ganga í Evrópusambandið til að hafa áhrif. Í Noregi liggur algerlega ljóst fyrir að Norðmenn ætla ekki að ganga í Evrópusambandið. Ég held að andstaðan við Evrópusambandsaðild í Noregi sé enn meiri en hér á landi (Gripið fram í.) og þó er hún mikil hér um þessar mundir, hún hefur verið það í alllangan tíma (Gripið fram í.) og fer vaxandi, hv. þingmaður.

Andstaðan við Evrópusambandsaðild í Noregi er yfir 80% þannig að það liggur ljóst fyrir að þeir ætla ekki að ganga í Evrópusambandið til að hindra fullveldisafsal. Það er mikil gagnrýni á fullveldisafsal í Noregi og er allt útlit fyrir að a.m.k. tveir þeirra flokka sem eru í ríkisstjórn í Noregi í dag muni setja þau mál á oddinn í næstu kosningabaráttu. Það varðar fullveldisafsalið til Evrópusambandsins. Þeir munu gera það að skýlausri kröfu að þetta verði kosningamál í Noregi, að hafist verði handa við að leita eftir því við Evrópusambandið að endurskoða EES-samninginn með það að markmiði að draga úr fullveldisafsali. Auðvitað hefur Noregur gríðarlega sterka stöðu til að gera það því að við sjáum það öll sem fylgjumst með stór hluti af orku Evrópusambandsins kemur frá Noregi í formi rafmagns og olíu. Evrópusambandið þarf meira á Noregi að halda en Noregur á Evrópusambandinu.

Ég held að það séu miklar og sterkar forsendur fyrir því að við Íslendingar leitum eftir því í samstarfi við Norðmenn að semja upp á nýtt um EES-samninginn og grunn hans því að það liggur alveg ljóst fyrir, eins og ég sagði áðan, að Noregur mun ekki bregðast með því að ganga í Evrópusambandið. Þá held ég að við eigum ekki að opna fullveldisframsal með þeim hætti sem verið er að gera hér og sem gert var í fyrirliggjandi frumvarpi og breytingartillögu frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. Ég held að það eigi mikið eftir að gerast í þessum málum á næstu árum. Það er mikilvægt að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar. Síðan hefur verið bent á ýmsar hugmyndir, t.d. hefur hv. þm. Birgir Ármannsson bent á hugmyndir um hugsanlega möguleika til að smávægilegt fullveldisframsal geti verið heimilt með þingmeirihluta en stærra fullveldisframsal þurfi miklu meiri stuðning, eins og til að mynda það að ganga í ríkjasamband, þá þurfi jafnvel 2/3 eða meiri stuðning þings og þjóðar. Það á líka skoða einhverjar slíkar leiðir en ég held að við eigum að stíga varlega til jarðar hvað þetta mál snertir.

Síðan bendi ég á annað sem Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir sem við hefðum átt að reyna fyrr að mynda breiðari samstöðu um. Það snýr að beinu lýðræði. Í breytingartillögum Margrétar Tryggvadóttur er fjallað um beint lýðræði. Ég held að við þurfum að skoða þann þátt betur. Við eigum að vinna að því að efla beint lýðræði og við eigum að vinna að því að þjóðin geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um hin ýmsu mál. En við eigum ekki að undanskilja þjóðréttarlegar skuldbindingar þegar kemur að því að þjóðin geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum, þrátt fyrir að sú heimild sé enn hjá forsetanum eigum við að færa það lýðræði beint til þjóðarinnar.

Við höfum mjög nærtækt dæmi um það, þ.e. Icesave-samningana, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur og kraftur þjóðarinnar kom í veg fyrir að ríkisstjórnin gæti sett hundruð milljarða kröfur á herðar almenningi í þessu landi. Þar var hræðsluáróðri beitt, stjórnkerfið var notað til að reyna að koma fólki í trú um að hér skylli á mikill frostavetur efnahagslega séð ef þjóðin hafnaði Icesave-samningunum og að allar líkur væru á því að þjóðin mundi tapa dómsmálinu. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni núna m.a. hjá hæstv. ráðherra og nýkjörnum formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem talað hefur um að í því stóra máli hafi ekkert annað verið hægt að gera en að semja vegna þess að gagnaðilarnir hafi ekki viljað fara með málið fyrir dóm. En þegar við skoðum þróun málsins og þegar það fór síðan fyrir dóm þá voru það auðvitað gagnaðilarnir sem áttu að fara með málið fyrir dóm. Hvað óttuðust menn að mundi gerast ef gagnaðilarnir vildu ekki fara með málið fyrir dóm? Í því máli sýndi þjóðin þann styrk sinn að geta gripið inn í og sagt: Hingað og ekki lengra. Þarna var nýttur neyðarventill á grundvelli ákvörðunar forseta Íslands. Ég er nánast viss um að þarna hefðum við þurft að hafa beint lýðræði tryggt þannig að þjóðin gæti kallað eftir því. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé virkilega svo að stjórnarliðar treysti á að við munum ávallt hafa jafngóðan forseta á Bessastöðum og við höfum í dag, að við munum ávallt hafa forseta sem er tilbúinn til að taka stöðu með þjóðinni á svona tímum en ekki með sitjandi ríkisstjórn undir hótunum frá alþjóðasamfélaginu o.s.frv.

Það er auðvitað ekki öfundsvert hlutverk sem forsetinn er í hvað þetta snertir. Það gerðist bæði í Icesave-málinu og í fjölmiðlalögunum að forsetinn var tilbúinn að taka þá ákvörðun sem hann tók, en Icesave-lögin voru frábrugðin vegna þess að þar var um þjóðréttarlega skuldbindingu að ræða. Ekki hafa allir verið tilbúnir til að segja að þeir styðji ákvæðið um beint lýðræði sem við greiðum nú atkvæði um í breytingartillögu, en þjóðin mun með beinum hætti ekki geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um samninga eins og Icesave. Ég held að það sé mjög gagnrýnisvert.

Síðan langar mig að koma aðeins inn á mál sem snýr að þeim hugmyndum um að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Ég kom inn á það áðan hversu mikilvægt það er að við getum ekki breytt stjórnarskránni dag frá degi. Við getum breytt einstökum lögum frá degi til dags eða ríkisstjórnir geta breytt um áherslur hvað varðar lög og reglugerðir o.s.frv., en hvað stjórnarskrána snertir þarf að vera ákveðinn stöðugleiki þegar kemur að breytingum á henni. Ég vitnaði í dæmi af breytingum á stjórnarskrá í Ungverjalandi þar sem verið er að breyta stjórnarskrá og búið er að gera það mjög ítrekað. Það er ekki til þess fallið að ýta undir stöðugleika í samfélögum.

Þegar Framsóknarflokkurinn bauðst til þess í upphafi þessa mánaðar, hann gerði það raunar í upphafi þessa árs, að forustumenn allra flokka settust yfir auðlindaákvæðið þá vöruðum við við því að við breyttum breytingarákvæði stjórnarskrárinnar eða í það minnsta þyrfti að skoða það mjög vel með hvaða hætti það væri gert. Í yfirlýsingu sem þingflokkurinn sendi frá sér um málið, og það birtist m.a. í fjölmiðlum, segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Þingflokkurinn hefur lagt áherslu á að sátt ríki um þær breytingar sem gerðar eru á stjórnarskránni. Núgildandi breytingarákvæði hefur á liðnum árum verið mikilvægur liður í að skapa þrýsting á stjórnmálamenn um að ná samstöðu og sátt um breytingar á stjórnarskrá. Sú vissa að tvö Alþingi þurfi til að samþykkja samhljóða breytingar á stjórnarskrá minnkar líkur á að breytingar á grundvallarlögum ríkisins séu keyrðar í gegnum Alþingi í ágreiningi milli fylkinga, þar sem alþingismenn og þingflokkar þurfa ætíð að taka tillit til mögulega skiptra skoðana á næsta þingi. Við núverandi aðstæður telur þingflokkur framsóknarmanna því eðlilegt að ákvæði um breytingar á stjórnarskrá sé aðeins breytt eftir að sátt hefur náðst um endurskoðun stjórnarskrárinnar að öðru leyti.“

Nú ber svo við að menn vilja breyta þessu samstöðuákvæði stjórnarskrárinnar, ákvæði sem þvingar menn til að setjast niður og ná víðtækri sátt úti í samfélaginu og innan þingsins um breytingar á stjórnarskrá. Menn vilja breyta því. Þá er auðvitað mikilvægt að slíkt sé gert af yfirvegun. Ég vil benda á að það er líka mögulegt að það breytingarákvæði sem menn vilja setja hér inn, verði það samþykkt nú og svo aftur eftir kosningar, gæti nýr meiri hluti á þingi breytt stjórnarskránni í allt aðra átt. Ég er ekki að segja að það sé að fara að gerast, síður en svo, en ég er fylgjandi því að menn reyni að skapa víðtæka sátt um málið, eins og ég hef sagt í ræðu minni. En komi til þess að einhvers konar meiri hluti hér á þingi á næsta kjörtímabili eða kjörtímabilinu þar á eftir, hvernig svo sem hann verður samsettur, getur hann við einhverjar kringumstæður sem við vitum kannski ekki hverjar eru, það geta komið upp alls konar kringumstæður, breytt stjórnarskránni með meiri hluta á þingi sem og þjóðaratkvæðagreiðslu. Við gætum í raun fengið það ástand sem er í ríkjum þar sem menn kvarta yfir því að slíkt stuðli ekki að stöðugleika. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að það sé grundvallaratriði við breytingar á stjórnarskránni að um þær ríki víðtæk sátt, að menn leiti eftir því að mynda víðtæka sátt um breytingar á stjórnarskránni.

Komið hefur fram í máli margra sérfræðinga sem fjallað hafa um málið hversu mikill ágreiningur hafi verið um það. Ég held að það hafi verið eitt af því sem kom fulltrúum Feneyjanefndarinnar hvað mest á óvart, þ.e. ágreiningurinn sem ríkir um málið á Íslandi og ítrekað hefur verið að mikilvægt sé að ná um málið víðtækri sátt. Það eru varnaðarorð sem við eigum að taka til greina þegar við ræðum þessi mál.

En aðeins varðandi það ástand sem er í þessum málum í þinginu. Menn hafa farið mikinn í umræðum og talað um að breytingartillaga frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur hafi verið einhvers konar sprengja inn í umræðuna og lítt fallin til sátta. Ég er þeirrar skoðunar að sú breytingartillaga hafi í raun ekki verið meiri sprengja inn í umræðuna en almennt hefur verið í vinnslunni á málinu. Það hefur ekki verið mikill vilji til að ná breiðri sátt um málið og því miður er það svo að nú á síðustu dögum þingsins, í þeim tillögufjölda sem hér liggur fyrir, og eru þær í hvor í sína áttina. Jafnvel hefur flokkur eins og Hreyfingin, sem stutt hefur ríkisstjórnina allt þetta kjörtímabil, sagt skilið við stuðning við hana nú á síðustu metrunum og hefur ríkisstjórnin ákveðið að setja líf sitt í hendur Bjartrar framtíðar í staðinn og ákveðið þar af leiðandi að fara þá leið sem þeir hv. þingmenn lögðu til. Það er auðvitað ekki fallið til sátta. Og í tengslum við umræðuna um auðlindaákvæðið, sem við höfum rætt sem breytingartillögu við stjórnarskrána, hafa margir velt því fyrir sér hvort þær tillögur séu þingtækar yfir höfuð. Við höfum séð það og heyrt í dag að sú breytingartillaga sem var sett á dagskrá í dag er einhver önnur tillaga en hv. þm. Árni Páll Árnason staðfesti í andsvörum í morgun að hann hefði verið með í gangi um helgina og sent formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Hann sagði þeim að það væri grunnur sátta, en svo kemur einhver allt önnur tillaga fram í þinginu í dag. Maður hefur á tilfinningunni að innan stjórnarliðsins sé hver höndin upp á móti annarri í þessu máli. Af hverju skyldi formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, hafa viðrað einhverjar tillögur við forustumenn stjórnarandstöðunnar um helgina en svo kemur einhver allt önnur tillaga fram í þinginu daginn eftir varðandi náttúruverndarákvæði? Halda menn að það sé til þess fallið að ná víðtækri sátt í málinu? Ég held ekki. Ég held að það sé raunverulega hægt að ná breiðri samstöðu um ákvæði um auðlindir í þjóðareign. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt, og hef sagt mína persónulegu skoðun á því og við framsóknarmenn höfum lagt það til í tengslum við umræðuna, að settur sé varnagli inn í slíkt auðlindaákvæði þar sem fram komi að ekki sé heimilt að framselja fullveldi yfir þessum auðlindum eða löggjafarvald. Ég held að það sé líka mikilvægt. Það er mjög miður ef við náum ekki því ákvæði inn í stjórnarskrá á þessu þingi, það er þá er ekki vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafi ekki verið tilbúinn til viðræðna í þessu máli. Þær hugmyndir og tillögur sem við höfum lagt til og þær tilraunir sem við höfum gert til að nálgast stjórnarliða í málinu á öllu þessu löggjafarþingi, nú í byrjun janúar og aftur núna í byrjun mars, hefur verið ýtt frá vegna þess að það átti að afgreiða allt málið. Það er langt síðan við áttuðum okkur á því að ekki yrði mögulegt að afgreiða allt málið. Þess vegna viljum við núna, og höfum talað fyrir því, að menn setjist yfir auðlindaákvæðið, en þá verða menn auðvitað að vera tilbúnir að ganga alla leið hvað það snertir og tryggja raunverulega þjóðareign á auðlindum.

Eru þingmenn Samfylkingarinnar tilbúnir að setja slíkt ákvæði inn? Ég held að hægt sé að ná sátt um þá breytingartillögu sem fyrir liggur, þær hugmyndir sem viðraðar hafa verið og verið hafa í umræðunni í langan tíma, hvort sem það er sú breytingartillaga sem fyrir liggur, þær hugmyndir sem við höfum viðrað og hafa verið í umræðunni meðal sérfræðinga frá árinu 2000 eða jafnvel þriðja hugmyndin sem hv. þm. Árni Páll Árnason hefur viðrað á göngunum, sem maður gerir sér ekki grein fyrir hversu mikils stuðnings nýtur innan hans raða. Ég held raunverulega að hægt sé að ná sátt um þau atriði, en grundvöllurinn fyrir því að hún náist er að menn séu tilbúnir að ganga alla leið í því að verja auðlindirnar og tryggja að þær verði í þjóðareign. Þá er ég að tala um að þær verði í eign íslensku þjóðarinnar og að löggjafar- og framkvæmdarvaldið á Íslandi hafi yfirráð yfir þeim en ekki löggjafar- og framkvæmdarvaldið í Brussel eða einhvers staðar annars staðar. Ef menn eru ekki tilbúnir í þann leiðangur dreg ég mjög í efa að menn séu raunverulega tilbúnir að tryggja auðlindir í þjóðareign og er það miður ef svo er.

Í lokin vil ég segja að ég dreg það í efa að vilji sé af hálfu ríkisstjórnarliðsins til að gera það. Mér finnst málið í rauninni vera sett þannig upp af hálfu ríkisstjórnarinnar að látið sé að því liggja að það verði stjórnarandstaðan sem stoppi málið, að hún sé ekki tilbúin til þess að klára það, að stjórnarandstöðuflokkarnir vilji ekki koma auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá o.s.frv.

Ég held að ég hafi rakið það vel í máli mínu, í það minnsta hvað Framsóknarflokkinn snertir, aðrir verða auðvitað að tala fyrir sig, að við erum tilbúin að setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá. Við erum tilbúin til þess að mynda breiða sátt um málið og höfum haft forgöngu í því m.a. með því að leggja fram ákveðnar hugmyndir í því efni. Við viljum hins vegar að þjóðareign okkar Íslendinga á auðlindunum sé tryggð í þessum ákvæðum. Við teljum ekki skynsamlegt að ráðast í að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar vegna þess að það er það ákvæði sem tryggt hefur að hægt er að skapa sátt um breytingar á stjórnarskrá. Svo höfum við sagt að með yfirlýsingu formannanna sé mögulegt að halda áfram með málið og halda áfram að vinna að því að breyta stjórnarskrá á næsta kjörtímabili og þar næsta kjörtímabili. Þar leggjum við ríka áherslu ákvæði sem snýr að þjóðaratkvæðagreiðslum (Forseti hringir.) og beinu lýðræði.