141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir málefnalega umræðu um stjórnarskrármálið í þinginu í gær. Mér fannst umræðan undirstrika að staðan er þannig núna að við höfum tækifæri hér í þinginu til að sameinast um að tryggja áframhaldandi líf stjórnarskrármálsins inn á næsta kjörtímabil, nýtt breytingarákvæði sem leggur grunn að farsælli niðurstöðu þess á næsta þingi og síðast en ekki síst samkomulag um auðlindaákvæði sem allir flokkar á þinginu hafa lýst vilja til að koma inn í stjórnarskrána.

Á samningaborðinu er breytingarákvæði, sem á uppruna í tillögu sjálfstæðismanna frá árinu 2009, og auðlindaákvæði sem stjórnarflokkarnir, Hreyfingin og Björt framtíð hafa lýst yfir stuðningi við. Það dregur fram mikilvægustu þættina í þeim tillögum sem fram hafa komið á undanförnum árum, þætti úr tillögum auðlindanefndar frá 2000 sem framsóknarmenn hafa lagt á borðið og þætti úr tillögum stjórnlaganefndar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur dregið inn og bent á.

Þeir grundvallarþættir eru í fyrsta lagi að náttúruauðlindir, sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar sem ekki megi selja eða veðsetja. Í öðru lagi að þessar náttúruauðlindir beri að nýta á sjálfbæran hátt og í þriðja lagi að nýtingarleyfin séu tímabundin, þeim sé úthlutað gegn eðlilegu gjaldi og á jafnræðisgrundvelli. Þetta er sá kjarni sem við eigum að geta sameinast um. Ef allar þessar tillögur eru lesnar saman er klár grundvöllur til að ná saman um orðalag þar sem þessir grundvallarþættir eru viðurkenndir og varðveittir, ef viljinn er fyrir hendi.

Virðulegi forseti. Vilji er nefnilega allt sem þarf. Það væri risastórt skref í átt til uppbyggilegri stjórnmálamenningar á Íslandi ef okkur tækist að grafa stríðsöxina og ná sögulegum sáttum um að tryggja þjóðareign auðlinda á Íslandi í samræmi við skýran þjóðarvilja í marga áratugi.