141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir heillaóskir til hv. þm. Þuríðar Backman og vil þakka henni fyrir ágætt samstarf, sérstaklega í Norðausturkjördæmi. Þar hefur okkur þingmönnum, sama í hvaða flokki við stöndum, tekist að vinna að gríðarlega stórum verkefnum eins og framgangi Vaðlaheiðarganga, Norðfjarðarganga og svo núna væntanlega kísilverksmiðju á Húsavík en ég bind miklar vonir við að við getum klárað þau mál á Alþingi.

Það er samt eitt sem mig langar til að vekja athygli þingheims á. Það hefur verið töluverð umræða um mikla og háa verðbólgu í samfélaginu. Ríkisstjórnin setti sér markmið um að koma verðbólgunni niður í um 1,6% á síðasta ári en hún hefur verið stöðug í rúmlega 4%. Þetta er gríðarlega mikið áhyggjuefni fyrir land og þjóð, hækkar verðtryggð lán og gerir stöðu heimilanna erfiðari en hún þyrfti að vera.

Samstaða var í fjárlaganefnd um að breyta fjárreiðulögum. Ný fjárreiðulög áttu að gera það að verkum að við gætum búið við meiri aga í ríkisfjármálum. Sá agi er nauðsynlegur til að koma á stöðugleika hér á landi, sérstaklega til að halda verðbólgunni niðri þannig að við getum séð fyrir endann á niðurskurði og skattahækkunum. Því miður dagaði þetta frumvarp uppi eins og svo mörg góð mál á meðan við ræðum um minna mikilvæg verkefni.

Ég vil benda á þetta og vona svo sannarlega að nýtt þing taki þetta mál upp, hér verði settir skýrir rammar sem standi og að við munum sjá fjáraukalög út úr myndinni (Forseti hringir.) eða að minnsta kosti að gera þau þannig að þau verði sett í algerum undantekningartilvikum þegar brýna nauðsyn ber til.