141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það er ekki hægt að segja annað en að þessa dagana séu þingstörfin í uppnámi. Það blasir sérkennileg mynd við þjóðinni sem horfir á og fylgist með. Ég hitti einn í gær sem sagði að við sér blasti hryggðarmynd af lýðræði þegar hann fylgdist með þingsjónvarpinu.

Við ræðum um eitthvað sem menn kalla sáttatillögu sem engin sátt er um og er einfaldlega krafa formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páls Árnasonar, um lúkningu á mikilvægasta máli kjörtímabilsins og máli sem yfirgnæfandi meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu vill klára en lítill hópur fólks á þingi er búinn að stöðva. Þetta er sérkennileg staða svo ekki sé meira sagt. Ég fylgist náttúrlega með stjórnarflokkunum eins og aðrir og það er furðulegt að horfa upp á hvernig stjórnarmeirihlutinn hefur lúffað algerlega fyrir þessari kröfu formanns Samfylkingarinnar. Það er engu líkara en hér sé í þinginu afturgenginn Davíð Oddsson sem formaður Samfylkingarinnar. Þingmenn Samfylkingarinnar dingla bara með eins og ekkert sé. Þeir eru með málamyndamótmæli, þeir eru með málamynda- og sýndarmennskuviðbrögð við stöðunni en gera ekki neitt, þeir segja ekki neitt. Þeir halda áfram þessum hefðbundna umkenningaleik.

Í gær kvartaði formaður þingflokksins yfir því að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur væru að tefja málið og í ræðum þingmanna í gær kenndu þeir hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að eyðileggja málið. Þetta er þvílíkur orwellískur hráskinnaleikur. Hér ráða óheilindi og ósannindi ríkjum í orðræðunni. Þingmenn valda ekki lýðræðinu þegar svona er komið. Það er grafavarlegt mál í ríki (Forseti hringir.) sem kennir sig við lýðræði að þing þjóðarinnar starfi með þessum hætti og því fyrr sem þetta blessaða þing sem við sitjum á fer heim, því betra.