141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera aðra tilraun til að vekja athygli á beiðni okkar hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um umræðu eða skýrslu um stöðu efnahagsmála í ljósi hagvaxtarins eins og hann liggur fyrir fyrir árið 2012. Við höfum beðið um að hæstv. fjármálaráðherra komi hingað til þings og geri grein fyrir því hvernig það gat verið að hagvöxtur ársins 2012 var rétt tæpur helmingur af því sem ætlað var.

Samtök atvinnulífsins birtu nú fyrir skömmu niðurstöðu rannsóknar sem þau hafa gert hjá stjórnendum íslenskra fyrirtækja. Þar kemur fram að ætlað er að fjárfesting atvinnulífsins muni dragast saman á árinu 2013. Það er mat forustumanna Samtaka atvinnulífsins að það þyrfti að auka atvinnuvegafjárfestinguna núna um eina 50 milljarða bara til að halda í horfinu þannig að ekki fari að ganga á fjármuni í landinu og vélum og tækjum verði slitið út þannig að stór skaði verði að.

Það kemur líka fram í þessari könnun að einkum og sér í lagi dregur úr fjárfestingu hjá minni fyrirtækjunum, fyrirtækjum sem hafa færri en 200 starfsmenn. Það er einmitt þar sem á að vera helsti vaxtarbroddurinn í íslensku atvinnulífi, einmitt þar eiga að vera mestu möguleikarnir til að fjölga starfsmönnum.

Eitt af því sem gert hefur verið er að tekin hefur verið ákvörðun um fjárfestingar á Bakka og það er ágætt. En til að ná þeirri fjárfestingu fram þurfti að fella niður tryggingagjaldið, lækka skatta á það fyrirtæki og reiða fram rúmlega 200 millj. kr. í starfsmenntasjóð ásamt töluvert miklum öðrum fjármunum til að búa til umhverfi fyrir fyrirtækið til að það vilji fjárfesta. Rökin eru þau að þetta sé kalt svæði í efnahagslegu tilliti.

Þegar við horfum á þessar tölur og þær horfur sem koma fram í skoðunum (Forseti hringir.) forustumanna í íslensku atvinnulífi þá er það svo að Ísland er kalt svæði í efnahagslegu tilliti. (Forseti hringir.) Stefna ríkisstjórnarinnar gerir einungis illt verra.