141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir ánægjuleg kynni og gott samstarf á síðastliðnum fjórum árum og óska henni alls hins besta í framtíðinni.

Ég vil vekja athygli á þeirri fréttatilkynningu sem barst í gær frá stjórn Grundar, dvalar- og hjúkrunarheimilis við Hringbraut, og Áss, dvalar- og hjúkrunarheimilis í Hveragerði. Í þeirri tilkynningu kemur fram að stjórnin hafi tekið ákvörðun um að hætta að greiða lífeyrishækkanir vegna B-deildar LSR í Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga frá og með 1. mars síðastliðnum.

Alls nema þessar greiðslur Grundar og Áss í fyrra 25 millj. kr. og svipuð fjárhæð var áætluð til greiðslu í ár. Alls hafa heimilin greitt um 180 millj. kr. síðastliðin tíu ár og telur stjórn Grundar að ríkisvaldinu beri að endurgreiða Grund þessa fjárhæð. Áfallnar ógreiddar lífeyrisskuldbindingar Grundar og Áss sem stjórn Grundar telur að ríkisvaldinu beri að taka yfir og greiða námu um síðustu áramót rúmum 800 millj. kr.

Virðulegi forseti. Í framhaldi af fréttatilkynningunni kom í ljós að stjórnin hafði sent bréf til velferðarráðuneytisins þar sem bent er á, í þessu samhengi, að nýtt hjúkrunarheimili sem er sambærilegt að hjúkrunarþyngd og Grund fær sömu daggjöld þrátt fyrir að þurfa ekki að greiða neitt vegna umræddra lífeyrisskuldbindinga. Vegna framangreinds og á meðan á því ástandi sem um ræðir varir mun Grund áfram senda móttekna greiðsluseðla vegna umræddra lífeyrisskuldbindinga til velferðarráðuneytisins.

Þessu til stuðnings hafa forsvarsmenn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu bent á að í bréfi frá ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins frá árinu 2009 kemur fram að í þeim forsendum sem liggja til grundvallar ákvörðunar vegna daggjaldanna er ekki tekið tillit til skyldu stofnana aðildarfyrirtækja í SFH, nú SFV, að greiða hækkanir á lífeyrisskuldbindingum til (Forseti hringir.) B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga.

Virðulegur forseti. Ég skora á hæstv. velferðarráðherra að höggva á þennan hnút.