141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Geirssyni fyrir ágæta yfirferð og sjónarmið hans. Hann sagði að engir meinbugir væru á þeirri stjórnarskrá sem er til umræðu og er inni í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur.

Ég sendi 40 síðna umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ekki hefur verið tekið neitt á þeim málum sem ég benti þar á, hvorki með né á móti. Ég benti til dæmis á að tómt mál væri að tala um að 2% kjósenda geti lagt fram frumvarp. Ég kom inn á að 10% reglan væri líka fráleit, en það kom ekkert, hvorki já né nei, kostir né gallar, við því. Ég ræddi líka heilmikið um Lögréttu sem mér finnst vera sniðug hugmynd en gjörsamlega vonlaus eins og hún er útfærð í tillögum stjórnlagaráðs og tillögum nefndarinnar, þ.e. óbreytt, að Alþingi kjósi fimm einstaklinga, jafnvel þingmenn. Í staðinn fyrir að nýta sér fullskipaðan Hæstarétt með allri þeirri þekkingu sem þar er innan borðs sem gæti þá líka tekið að sér að vera stjórnlagadómstóll og tekið að sér að taka upp mál sem fara ekki í gegnum dómskerfið og þar sem menn telja að viss lög standist ekki stjórnarskrá. Þetta vantar, ekki er tekið neitt á því.

Svo segir hv. þingmaður að engir meinbugir séu á þessu frumvarpi. Ég sé helling. Ég benti á að 80 greinar verði ekki virkar nema Alþingi geri eitthvað. Mér finnst þetta bara út í hött. Stjórnarskráin á að vera greinileg, skýr og gefa fyrirmæli til löggjafarvaldsins, framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins. Það eru heilmiklir meinbugir á frumvarpinu. Ég væri sáttur við að menn mundu vísa þessum hugmyndum mínum frá en ekki bara sleppa þeim.