141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:49]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans. Ég þekki náttúrlega ágætlega af góðum samskiptum við hv. þm. Pétur H. Blöndal hvaða skoðanir og sjónarmið hann hefur haft uppi í þessu máli. Ég verð að segja honum það til hróss að hann hefur verið einn örfárra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem hefur tekið virkan þátt í stjórnlagaumræðunni á þessu þingi og hann á þakkir skildar fyrir það. Eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur lagt fram efnislegar breytingartillögur og lagt eitthvað inn í umræðuna sem hefur vissulega verið horft til. Það verður hins vegar að segjast eins og er að skoðanir hv. þingmanns eru auðvitað hans persónulegu skoðanir, alveg eins og margir aðrir þingmenn hafa sínar persónulegu skoðanir á ákveðnum ákvæðum, hvort sem það snýr að Lögréttu, 10% reglunni eða 2% viðmiðuninni.

Mörg atriði sem komu fram í ítarlegu breytingarplaggi hv. þm. Péturs H. Blöndals voru rædd og yfirfarin og horft var til þeirra í því þegar verið var að yfirfara og endursemja textann. Vissulega er það rétt að þau atriði hafa ekki öll farið inn frekar en aðrar ábendingar og athugasemdir frá fjölmörgum öðrum sem hafa komið að málinu. Þær ábendingar sem komu inn í umræðuna skipta hundruðum.

Þegar ég segi að engir meinbugir séu á þessum texta þá snýr það ekki að því að ekki séu mismunandi persónulegar skoðanir og afstaða til ákveðinna atriða í textanum heldur hinu að tæknilega og lögfræðilega gengur þessi texti bara mjög vel upp og búið er að laga ákveðna þætti sem þurfti til þess að samstilla þau atriði. Þeir þættir sem voru hér mjög undir í umræðunni framan af, að þetta gengi ekki og þetta rækist hvað á annars horn og þessir hlutir væru allir ómögulegir, ég bara blæs á allt slíkt.

Það hefur verið farið mjög tæknilega og lögfræðilega vel yfir þessa hluti og skjalið eins og það liggur fyrir núna er fullbúið og skýrt hér til afgreiðslu.