141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem er flutt af hv. þm. Árna Páli Árnasyni, hæstv. menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. Því til viðbótar liggja fyrir tvær breytingartillögur við málið sem eru til umfjöllunar samhliða.

Ég vil þó segja í upphafi, áður en ég fer efnislega yfir þessa hluti, tillögugerðina sjálfa og lögin, að ég held að það væri umhugsunarvert fyrir okkur öll að reyna að hugsa fram á veginn, þ.e. hvernig við gætum nýtt þá miklu vinnu sem farið hefur fram við heildarendurskoðun á stjórnarskránni.

Það er hægt að segja sem svo að sú vegferð hafi verið frekar brösug, bæði hvað varðar kosningu til stjórnlagaþings og síðan skipun stjórnlagaráðs. Hvaða skoðanir sem við höfum á því held ég að við ættum að hætta að velta okkur mikið upp úr því heldur hugsa hvernig við getum nýtt þetta ferli til framtíðar og þá með það að markmiði að það verði okkur til góðs.

Það er líka spurning þegar maður hugsar þetta út af fyrir sig — sérstaklega í ljósi þessa kjörtímabils, ég hef ekki setið nema eitt kjörtímabil og hyggst ekki sitja fleiri — hvort sú aðferð sem hér um ræðir snýr að því að færa breytingar á stjórnarskránni í annað horf en verið hefur. Við þekkjum hvernig ferillinn hefur verið. Skipuð hefur verið nefnd innan þingsins af því að þingið er með vald til breytingar á stjórnarskránni. Farin er ný leið og hún er mjög athyglisverð. Ég vil leyfa mér að hugsa það þannig inn í framtíðina, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan í andsvörum, að ef menn stíga skref á þeirri leið sem liggur fyrir að farin verði í frumvarpinu sem við ræðum kemur þjóðin að því að samþykkja stjórnarskrána.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur, og ég held að það sé mikilvægast fyrir okkur að varðveita inn í framtíðina, að nú höfum við verið að feta okkur inn á þessa braut á þessu kjörtímabili sem hefur verið mjög mikið átakaþing — kjörtímabilið í heild hefur einkennst af miklum átökum og ég held að það sé hollt fyrir okkur öll að líta í eigin barm. Eflaust eigum við þátt í því hvert og eitt, eða að minnsta kosti mörg okkar, og við ættum að íhuga hvort við gætum nálgast verkefnin á annan hátt í framtíðinni.

Það er nóg að nefna átökin í kringum Icesave-samningana, sem voru þrennir, landsdómsmálið, Evrópusambandsmálið o.fl. Getur verið að þau átök hafi smitast yfir á meðferðina á því máli sem við erum að ræða um stjórnarskrána og breytingar á henni? Það er mikilvægt að hugsa þetta áður en menn kveða upp stóra dóma um þessa vegferð og það sem við ættum að læra af þeirri breytingu sem hér er gerð.

Hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson og hæstv. menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, lögðu fram tillögu sem snýr að því annars vegar að gera breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar til að menn geti haldið áfram og sett inn tímabundið ákvæði til breytingar án þess að rjúfa þurfi þing og efna til kosninga — þ.e. þeir þröskuldar sem settir yrðu hér inn og síðan yrði farið inn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér fannst þetta nokkuð merkilegt innlegg í umræðuna og í 1. umr. talaði ég um það á þann veg að um væri að ræða jákvætt skref.

Við vitum hve skoðanir eru skiptar um það hversu raunhæft það er eða mikilvægt að klára heildarendurskoðun á stjórnarskránni allri. Ég vil þó segja að ég ber virðingu fyrir skoðunum þeirra hv. þingmanna og hæstv. ráðherra og fólks úti í þjóðfélaginu sem telur það mjög mikilvægt mál. Ég tel önnur mál brýnni og mikilvægari. En hvað um það, við skulum ekki endilega staldra við það. Ég var eiginlega á þeirri skoðun og viðurkenni það að mér fannst það óraunhæft markmið miðað við þann tíma sem var til stefnu.

Þess vegna fannst mér þessi tillaga, sem formenn stjórnarflokkanna ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni lögðu fram, athyglisvert innlegg í það sem ég hef ræðu mína á að nefna, þ.e. hvernig getum við nýtt okkur alla þessa vinnu og alla þessa umræðu í framtíðinni og lært af henni þannig að hún verði okkur öllum til góðs. Ekki það að menn staldri alltaf við og segi: Allt eða ekkert. Ég hef rétt fyrir mér í öllu og þú rangt fyrir þér í öllu. Síðan kemur þingsályktunartillagan sem hangir við frumvarpið sem slíkt, þ.e. að með skipun þeirrar nefndar sem þar er gert ráð fyrir, það er auðvitað skrefið í þá átt sem menn þurfa að stefna á næsta kjörtímabili. Ég segi enn og aftur: Mér fannst þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra í raun og veru vera að leysa hnútinn miðað við þá stöðu sem mér fannst málið vera í. Ég kom hingað í 1. umr., tók þátt í henni og kom að henni með það í huga hvernig við gætum nálgast markmiðið.

Hæstv. utanríkisráðherra kom í andsvar við mig og við rökræddum þá þröskulda sem settir eru, það er bara eðlileg málefnaleg umræða við meðferð málsins. Ég er sammála því, sem komið hefur fram hér, bæði hjá hv. þm. Skúla Helgasyni, undir störfum þingsins, og eins hjá hv. þm. Lúðvíki Geirssyni, að þessi umræða í gær var mjög málefnaleg. Við berum virðingu hvert fyrir annars skoðunum, sjáum hlutina með ólíkum hætti og höfum mismunandi sterkar skoðanir og málefnaleg umræða á alltaf að eiga sér stað. Það er varasamt að hafa alltaf þá skoðun að allt sem afgreitt er úr einum þingflokki sé það eina rétta en allt ómögulegt sem kemur frá hinum. Við eigum ekki að nálgast verkefnin á þann hátt. Við höfum því miður gert allt of mikið af því á því kjörtímabili sem er að líða.

Ég sat hér og hlustaði á umræðuna, það sem kemur fram í máli hv. flutningsmanna tillögunnar. Hv. þm. Árni Páll Árnason, 1. flutningsmaður hennar, telur ekki raunsætt að klára málin á þeim fáu þingdögum sem eftir eru og í máli hans kemur fram skýr vilji til að nýta þá miklu vinnu og breytingar inn á næsta kjörtímabil. Þetta kemur líka fram í máli hæstv. menntamálaráðherra og mér finnst að við eigum að nálgast verkefnin á þann hátt. Það er líka merkilegt sem kemur fram í ræðum þessara hv. þingmanna og hæstv. ráðherra að mikilvægt sé að skoða sögu stjórnarskrárbreytinga og þroska umræðuna til áframhaldandi vegferðar. Það kemur mjög skýrt fram og því er ég sammála.

Ég verð síðan að segja alveg eins og er að það setur töluvert strik í reikninginn, að mínu viti, þegar síðan kemur breytingartillaga við frumvarpið sem við ræðum hér — við munum ræða um þingsályktunartillöguna hér á eftir — sem er bara eitt stykki stjórnarskrá í breytingartillögum. Það er réttur hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur að leggja þessa tillögu fram. Hennar sýn á málið er önnur. Hún hefur þá sýn að best sé að fá málið til heildarafgreiðslu í þinginu. Ég er ekki sammála henni um það. En hvað um það, það er ekki aðalatriði málsins. Hún metur stöðuna þannig og hefur fullan rétt á að leggja málið þannig upp. Væntanlega verður farið yfir það af stjórn þingsins hvort þetta sé framkvæmanlegt. Ekki treysti ég mér til annars en samþykkja þann dóm sem þar verður kveðinn upp af því vandaða starfsfólki sem þar er.

Fram kom í andsvörum hér áðan, milli mín og hv. þm. Lúðvíks Geirssonar, að það sem kallar á fyrstu viðbrögð við þessari breytingartillögu er að greinargerðina með tillögunum vantar. Það gæti orðið flókið hvað varðar lögskýringar hjá Hæstarétti og dómaframkvæmd ef þetta yrði samþykkt þannig. Það eru annmarkarnir sem blasa við. Mér fyndist það nánast algert óráð — ég veit ekki hvort ég á að nota orðið lítilsvirðing en alla vega ekki nægileg virðing fyrir breytingum á stjórnarskránni — að fara að afgreiða hana sem breytingartillögu. Það er að mínu viti ekki boðlegt. En þetta er réttur hv. þingmanns. Hún nálgast verkefnið á þennan veg og það verður að virða þá skoðun hennar án þess að fara að tæta það niður á annan hátt en þann en láta bara í ljós skoðun sína á því. Það er skynsamlegast að gera það í stað þess að vera með fullyrðingar og standa í deilum.

Mér fannst líka seinni breytingartillagan, sem kemur frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, Álfheiði Ingadóttur, Árna Þór Sigurðssyni og Skúla Helgasyni, töluvert athyglisverð. Tekinn er einn hluti af því sem snýr að þeim tillögum og breytingum sem eru í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar meiri hluti nefndarinnar hefur skilað af sér. Þessi tillaga er líka til þess fallin að flækja málið enn frekar — ég óttast það og kom inn á það í andsvörum í gær — og skapa meiri tortryggni í kringum það en þurft hefði að vera.

Þegar maður kemur með breytingartillögu eins og þessa inn í frumvarpið vaknar líka sú spurning hvort það uppfylli þau skilyrði að það fari í þrjár umræður, hvort sú breytingartillaga sem hér er sé nægjanleg. Hún kemur reyndar fram í framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í miðri 2. umr. en þá er búið að breyta ákvæðinu frá því sem var fyrst í frumvarpinu og í fyrstu tillögunni, þ.e. búið er að breyta orðalaginu „gegn eðlilegu gjaldi“ í „gegn fullu gjaldi“. Ég geri ekki athugasemdir við þær orðalagsbreytingar en hér erum við að ræða um stjórnarskrána sjálfa, við erum ekki að ræða eitthvert hefðbundið lagafrumvarp. Ég held því að það þyrfti að skoða þegar menn koma með svona efnislega breytingu sem breytingartillögu — af því að við erum að tala um stjórnarskrána, við erum ekki að tala um almennt lagafrumvarp sem oft er komið með svona breytingar á — hvort það hafi þá uppfyllt þau skilyrði að fara í gegnum þrjár umræður af því að hvert orð og skilningur á túlkun á ákvæðinu hefur svo mikið gildi í grunnlögum landsins. Ég staldra strax við þessa spurningu. Getur verið að deilur gætu orðið um þetta í framtíðinni ef þetta færi svona í gegn og þessu yrði breytt með þessum hætti, að ekki hefðu verið teknar þrjár umræður um þessa tillögu. Ég velti því hér upp. Ég ætla ekki að vera með neinar fullyrðingar en ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði skoðað sérstaklega haldi menn áfram með þessa breytingartillögu.

Það sem er líka slæmt við þessa tillögu — það er ekki innihald tillögunnar sem ég er að gagnrýna, ég ætla ekki að taka efnislega umræðu um þetta auðlindaákvæði. Það sem er vont við hana er að hún kemur inn í þetta umhverfi sem við erum í. Það er mikil tortryggni. Það er ekki traust á milli manna. Ég spurði einn flutningsmann tillögunnar frá því í gær. Gætum við til dæmis átt von á því að við 3. umr. málsins kæmu fram sex eða sjö breytingartillögur til viðbótar. Því gat hv. þingmaður auðvitað ekki svarað því að hún getur ekki svarað fyrir aðra hv. þingmenn því þeir hafa tillögufrelsi og málfrelsi til að gera það sem þeir vilja. Mér fannst því þessi tillaga vont innlegg í málið. Ég ítreka það sem ég segi, það er ekki innihald tillögunnar heldur það eitt að hún kemur fram.

Það læddist að mér sá grunur að þetta væri krókur á móti bragði — mig minnir að sérfræðingarnir sumir hverjir eða bloggararnir hafi kallað það það — að setja málið í þann farveg sem það var 2009 og skilja það eftir þannig að menn stæðu hér organdi og gargandi alveg fram undir þingkosningar. Það læddist að mér sá grunur, en ég fullyrði ekki neitt um það.

Mér finnst þessi tillaga líka ganga gegn frumvarpinu sem lagt er fram af formönnum stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. Hér er gert ráð fyrir því, hvað varðar breytingu á breytingarákvæðinu sem slíku, að 3/5 hluta þingmanna þurfi til að samþykkja það. Það breyttist reyndar í efnismeðferð hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem ég ætla að fjalla aðeins um á eftir. Núna er það að klára eina tillögu, kannski tvær, kannski þrjár eða kannski fjórar á allt annan hátt en gert er ráð fyrir í frumvarpinu sem breytingartillagan er lögð fram við. Ég held að þetta sé umræða sem er mikilvægt og hollt fyrir okkur að taka og þess vegna leist mér ekki nógu vel á þessa tillögu.

Ég hefði talið skynsamlegast fyrir framgang málsins — og ég tek fram að þetta er mín persónulega skoðun, ég er ekki að tala fyrir neinn þingflokk, ég hef ekkert umboð til þess — að horfa á þetta mál lausnarmiðað í þeirri stöðu sem það er. Okkur kann að greina á um hver staðan er nákvæmlega, hversu mikilvægt er að klára málið en ég er búinn að koma minni skoðun á framfæri hvað það varðar.

Ég hefði talið mikilvægt fyrir forustumenn stjórnmálaflokkanna að ná trúnaði og trausti og setja málið í þann farveg sem hér er lagt til, hvort heldur um er að ræða hv. þm. Árna Pál Árnason, hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur, hv. þm. Guðmund Steingrímsson, hv. þm. Bjarna Benediktsson eða hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Mér finnst grunnurinn að þessari tillögu, ásamt þingsályktunartillögunni sem er stór hluti af henni — mér finnst að nást þurfi trúnaður og traust og samvinna um það hvernig hugsanlega verður farið í breytingar á stjórnarskránni á næsta kjörtímabili.

Ef það mál sem nú er til umræðu dagar uppi — ég er ekkert að gefa neitt í skyn um það, það má ekki skilja mig þannig — er hætt við að öll sú vinna sem farið hefur fram glatist og menn fari í sama hjólfarið aftur. Menn geta haft skiptar skoðanir um það en mér fannst þessi aðferðafræði athyglisverð að því leyti til að þarna kemur þjóðin að ákvörðunartökunni. Það sem mér finnst mikilvægast í því er að þegar búið er að ná breytingunum fram í þinginu þá getum við tekið stjórnarskrárbreytingarnar út fyrir sviga, þ.e. þingið gerir breytingarnar og síðan fer það í þjóðaratkvæðagreiðslu, smitast ekki inn í aðrar kosningar. Ég er dálítið fastur þar. Mér finnst að við eigum að þróa þetta og þess vegna finnst mér sú tillaga sem snýr að auðlindaákvæðinu ekki gott innlegg í umræðuna, bara breytingartillagan sem slík ekki efnisinnihald tillögunnar.

Það kom skýrt fram í umræðunni í gær að ákveðin rök eru fyrir því að hv. stjórnarliðar segi: Þetta var það sem naut mest stuðnings í þjóðaratkvæðagreiðslunni, að setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrána. Við erum öll sammála um það. En þá blasir við að það ákvæði sem um er að ræða í breytingartillögunni var ekki sett þjóðaratkvæðagreiðslu heldur vill þjóðin setja ákvæði um auðlindirnar í stjórnarskrána. Við hefðum líka getað séð þetta þannig fyrir okkur að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, þingflokkur Hreyfingarinnar eða þingflokkur Framsóknarflokksins hefði komið fram með tillögu og sagt: Þetta er tillagan sem þjóðin bað um. Það er ekki þannig. Ég hræðist það, ég vil ekki að málið endi þannig. Ég vil að við nýtum okkur þá vinnu sem unnin hefur verið í framtíðinni. Vonandi verður spennustigið á næsta kjörtímabili aðeins minna svo að menn geti sest yfir málin og nýtt þessa miklu vinnu. Þess vegna slær þessi tillaga mig illa. Fleiri spurningar munu vakna, það blasir við, þrjár í viðbót, fjórar í viðbót, fimm í viðbót, og enginn getur svarað fyrir það. Þess vegna er svo mikilvægt að ná traustinu og trúnaðinum til að halda áfram með málið. Það er mín skoðun.

Ég hef nálgast verkefnið, gerði það strax í 1. umr., út frá þessari spurningu: Er þessi þröskuldur of hár eða er hann of lágur, hvort heldur sem er í þinginu eða í þjóðaratkvæðagreiðslunni? Það breytist í meðförum hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, meiri hluta hennar, sem leggur til að það verði aukinn meiri hluti á þinginu, þ.e. í staðinn fyrir 3/5 verði það 2/3, þ.e. að farið verði úr 60% þingmanna í 66% þingmanna. En síðan er þröskuldurinn lækkaður í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Sé gert ráð fyrir einföldum meiri hluta þurfi alla vega helmingsþátttöku í kosningunum og 25% kosningabærra manna þurfi því að samþykkja breytingar á stjórnarskránni.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal var 1. flutningsmaður að frumvarpi sem er með þessa þröskulda töluvert hærri, 50%. Hann sagði í andsvörum í gær — hann er að fara að flytja ræðu hér í dag — að honum fyndist kannski að línan ætti að vera einhvers staðar þarna mitt á milli. Tökum þá umræðu. Ég er á þeirri skoðun að þessi þröskuldur sé allt of lágur. En þegar maður fer yfir nefndarálit meiri hlutans, þar sem lagðar eru fram þær breytingar sem hér um ræðir, vitnað til þess að þetta séu ákvæði sem hafi verið flutt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þá koma strax svör: Jú, jú, það var gert á þeim tíma. Svo sjáum við útskýringar á því að það sé ekki alveg nógu gott í dag, að við séum búin að læra það af þessari umræðu að þetta sé frekar of lágur þröskuldur.

En ef við hugsum nú málið rökrétt eins ég var að velta fyrir mér og ætlaði að segja í umræðunni í gær. Ef það er þannig, og það er það sem mér finnst að við þurfum að ræða, að gert sé ráð fyrir að 2/3 þingmanna samþykki breytingarnar, síðan fari þær í þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki endilega samhliða alþingis- eða sveitarstjórnarkosningum. Ég tel að við ættum helst að reyna að taka þær út fyrir sviga og hafa þær ekki samhliða þessu, alls ekki alþingiskosningum, alls ekki. Ég set spurningarmerki við sveitarstjórnarkosningarnar, ég viðurkenni það. Þá verður maður að horfa á það þannig að þegar breytingarnar á stjórnarskránni eru unnar í svona mikilli sátt, vil ég leyfa mér að segja, þar sem gert er ráð fyrir að 2/3 þingmanna samþykki breytingarnar, þá er sú hætta fyrir hendi og það verður maður að viðurkenna, þannig horfi ég á það, og þá er ekkert sjálfgefið að mikil þátttaka sé í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það er ekki sjálfgefið. Þess vegna finnst mér kannski of bratt farið að vera með hlutfallið svona hátt eins og hefur komið fram að vera kannski með 50% af atkvæðisbærum mönnum. Ég set spurningarmerki við þetta.

Ef við förum að breyta stjórnarskránni í þeirri sátt sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og í breytingartillögum meiri hlutans, þar sem þröskuldurinn er hækkaður gagnvart þinginu, megum við ekki líta á það sem sjálfgefinn hlut að þátttakan í þjóðaratkvæðagreiðslunni verði endilega svo mikil. Þess vegna verðum við að ræða þetta út frá þeim grunni. Mér finnst meiri hlutinn í nefndinni þegar hann fer yfir þetta — þó svo að fram komi að einn hv. þingmaður í nefndinni vilji ekki hafa neina þröskulda, það er bara sjónarmið hv. þingmanns að vilja nálgast verkefnið þannig. En þetta er umræða sem við þurfum að taka og ég held að við gætum alveg þroskað hana og náð henni. En ég óttast dálítið, og ligg ekkert á þeirri skoðun minni, að þessi breytingartillaga, um auðlindaákvæðið, sé ekki gott innlegg í málið í heild sinni sérstaklega við þetta að hún er lögð fram við það frumvarp sem hér um ræðir. Ég benti á að skoða þyrfti, af því að við erum að ræða stjórnarskrána, hvort þetta sé nægilegt, hvort hugsanlega gætu orðið deilur um það, það gæti þurft að fá þrjár umræður en ekki tvær. Fyrir utan það held ég að það sé mjög mikilvægt til að tryggja þennan farveg inn í næsta kjörtímabil að ná trúnaði og trausti sem þarf að ríkja um málið og samstöðu þannig að það gangi eftir sem hér er lagt til.

Ég sagði áðan að þingsályktunartillagan sem við ræðum á eftir þessu máli, þegar búið er að ræða frumvarpið sem slíkt, væri stór hluti af framkvæmdinni, kannski ekki órjúfanlegur hluti, ég vil ekki taka svo djúpt í árinni, þ.e. að menn skipi fimm manna nefnd, sem er reyndar breytt í meðförum hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þar sem málin eru sett í ákveðinn farveg. Við hefðum þurft að ná breiðri samstöðu, og getum gert það, um þessa aðferðafræði, þ.e. að gera breytingar á 79. gr. sem snýr að breytingum á stjórnarskránni, þróa okkur inn í þann farveg að geta breytt henni án þess að boða til kosninga og síðan farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin greitt atkvæði um málið.

Þá blasir við að þingsályktunartillagan sem sömu hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar flytja, um framhald málsins næsta kjörtímabil, er mjög mikilvægur hlekkur í því að við höldum áfram og nýtum vegferðina sem að baki er. Lagt er til að tillögur liggi fyrir ekki seinna en í október — ég held að það hafi verið 1. október á þessu ári, tillögur út af þessari nefnd. Gert er ráð fyrir að allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi skipi nefndina. Mér fannst sú breytingartillaga sem gerð var í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mjög til bóta þar sem gert er ráð fyrir því að þingið skipi formann nefndarinnar. Mér fannst það jákvætt skref hvað varðar framhaldið og síðan eftir kosningar. Ef breið sátt næst um þessa málsmeðferð aukast líkur á því að við getum klárað málið og haldið því áfram á næsta kjörtímabili. Það er mín skoðun. Það er grunnurinn að við nýtum þá vinnu sem unnin hefur verið í þinginu.

Þess misskilnings gætir stundum í umræðunni að mikilvægasti þátturinn í þróun þessa ferlis sé það sem sagt er í þessum ræðustóli en ég er ekki á þeirri skoðun. Ég held að ferillinn úti á meðal fólksins sé ekki síður mikilvægur, á meðal fræðimanna, á meðal þeirra sem hafa látið sig málið varða. Umræðan í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er mun mikilvægari en umræðan hér í þingsal. Það er mín skoðun. Ég held að mjög margir hv. þingmenn ofmeti mikilvægi þess að taka alla umræðuna hér. Ég get tekið undir það sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvíki Geirssyni, í andsvörum við mig, þegar hann benti á að mun dýpri umræða þyrfti að fara fram í nefndinni og allir þyrftu að taka þátt í henni. Það er mikilvægt til að hægt sé að halda áfram með málið.

Við þekkjum ferilinn í málum sem eru unnin þannig í nefndunum, það eru yfirleitt þau mál sem fá bestan og eðlilegastan framgang og umræðu í þingsal. Við verðum líka að átta okkur á því, það er mikilvægt bæði fyrir stjórnarandstöðuna og stjórnarmeirihlutann, að við verðum að líta í eigin barm og hugsa með sjálfum okkur: Hverju getum við breytt? Ekki er hægt að gera kröfur um að hinir komi yfir í gröfina til okkar, skotgrafirnar eins og er stundum sagt. Menn þurfa að nálgast verkefnið á þann veg að þeir spyrji sjálfa sig: Hvað get ég lagt af mörkum til að breyta vinnubrögðunum? Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Þetta þekki ég í störfum mínum í hv. fjárlaganefnd. Þar hafa verið mjög mörg mál, erfið og flókin, sem ekki þurfti mikinn hvata til að setja í pólitískar skotgrafir — þar höfum við náð að vinna mjög mörg mál faglega, við höfum unnið þau sem ein nefnd, sem ein heild. Það hefur verið eitt af því mikilvægasta sem ég hef lært á þeim stutta stíma sem ég hef verið hér að þegar menn snúa sér að faglegri vinnu, taka pólitíkina út fyrir, fæst skynsamleg niðurstaða, hvort heldur verið er að ræða stjórnarskrána, sem er auðvitað mikilvægasta þingmálið, eða önnur mál. Ég ítreka því að við þurfum að horfa í spegilinn, skoða okkur sjálf, hvort sem það er stjórn eða stjórnarandstaða, við megum ekki klúðra öllum málum.

Nú stöndum við hér og rífumst um auðlindaákvæðið eða breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Sú tillaga er að mínu viti vísasti vegurinn til að drepa málið. Það getur verið að ég hafi rangt fyrir mér en ég óttast að hún verði til þess að drepa málið. Þess vegna hefði ég talið skynsamlegast að vera ekki með breytingartillögu við þetta nema það sem kom frá nefndinni, þær eru eðlilegar vegna þess að þar er verið að færa til þröskuldana en ekki gera efnisbreytingu á málinu sem slíku. Það gefur augaleið að við höfum mismunandi skoðanir og mismunandi sýn og ég efast ekki um að mörgum hv. þingmönnum finnist mjög mikilvægt að koma í gegn ákveðnum breytingum til viðbótar við auðlindaákvæðið, þ.e. einhverjum öðrum tillögum úr einstaka köflum þeirra tillagna sem liggja fyrir meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það verður þá hættan milli 2. og 3. umr. að það muni gerast og þess vegna geti þetta sett málið endanlega í strand, að málið dagi uppi í átökum.

Mér finnst nógu mikil átök hafa verið í kringum þetta mál og allt of mikil. En ef við mundum hugsa það þannig að geta nýtt það og ljúka þessu þannig eins og frumvarpið gerir ráð fyrir og þingsályktunartillagan — ég ítreka að mér finnst hún mjög mikilvægur partur af því að setja málið áfram inn í næsta kjörtímabil, það er nánast órjúfanlegur þáttur af málinu að gera það með þeim hætti — þá held ég að það væri best fyrir okkur öll og inn í framtíðina náttúrlega og þjóðina í heild sinni að það mundi nýtast með þeim hætti sem hér um ræðir. Við þurfum að reyna að draga andann, lækka spennustigið og hugsa hvernig við getum nýtt þá vinnu sem unnin hefur verið.

Hv. þm. Magnús Orri Schram hafði á orði í gær að kannski væri ástæða til að grafa stríðsöxina, hætta að pexa um hvort málið hefði verið nægilega mikið rætt eða hvort það er nógu langt komið til að fara í heildarbreytingar á stjórnarskránni allri. Hv. þm. Lúðvík Geirsson kom inn á það að framhaldsnefndarálitið, sem var unnið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, var tekið inn í miðri 2. umr. — þ.e. 2. umr. var hafin og þá er málið tekið eftir að álitið frá Feneyjanefndinni kemur. Það nefndarálit er á annað hundrað blaðsíður, framhaldsnefndarálit, sem kannski segir okkur allt um umfang málsins og mikilvægi þess. Við sjáum bæði breytingarnar og frumvarpið í heild sinni og síðan breytingarnar eftir fyrri umræðuna og síðan framhaldsnefndarálitið sem hér um ræðir.

Ég hélt eina ræðu í þessu máli meðan frumvarpið var allt á dagskrá og hafði eytt nokkrum klukkutímum í að reyna að komast í gegnum þær athugasemdir og ábendingar sem komið höfðu fram við einstakar greinar í málinu. Nú á ég ekki sæti í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þannig að umfangið er töluvert mikið. Maður þarf að leggja sig fram, ég að minnsta kosti, til að geta náð því að fara yfir einstakar efnisgreinar. Það er gríðarlega mikilvægt að við gefum okkur þann tíma sem þarf. Sumir telja tímann þegar hafa verið nægilega mikinn en ég er á þeirri skoðun — í stöðunni eins og hún var tel ég þetta innlegg formanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar vonarneistann sem þarf til að hægt sé að halda áfram og varðveita málið fram á næsta kjörtímabil. Það getur vel verið að ekki séu allir mér sammála um það, ekki einu sinni í mínum eigin flokki hvað þá í öðrum flokkum. En þetta er mín persónulega skoðun.

Það væri mjög slæmt, svo að ég ítreki það, ef málið endar í miklum ágreiningi. Þá skapast sú hætta að við förum aftur í sama farveginn og segjum: Við reyndum að skipa stjórnlagaráð og stjórnlagaþing o.s.frv., við þekkjum þá sögu alla. Þetta var algerlega vonlaust, þetta fór allt í vitleysu, ekkert nema deilur og átök og eintóm leiðindi. Sú er hættan. Hv. þingmenn, sem koma hingað inn á næsta kjörtímabili eða þarnæsta kjörtímabili, gætu hugsanlega afgreitt það þannig, þeir sem vilja ekki breyta stjórnarskránni í þessu ferli. Ég ber virðingu fyrir skoðunum þeirra sem vilja hafa óbreytt ástand. Ég held hins vegar að það séu margir sem ofmeti það eins og það er. Ég held líka að of margir geri of mikið úr því hversu erfitt sé að breyta stjórnarskránni.

Ég er þeirrar skoðunar að þróa eigi þetta á þann veg að þingið eigi að fara ofan í breytingarnar og síðan eigi þjóðin að fá að kjósa um stjórnarskrána. Við eigum að ræða efnislega um þá þröskulda sem um er að ræða, breytingarnar sem gerðar eru í nefndinni. Annar er hækkaður og hinn er lækkaður, þ.e. þröskuldurinn er hækkaður hér í þinginu en lækkaður í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Mér finnst efnisleg rök til að fallast á að þegar aukin samstaða er í þinginu sé það ekki sjálfgefið að mikil þátttaka verði í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég vil segja við hv. þingmenn, flutningsmenn breytingartillögu við frumvarpið, að ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með þá tillögu upp á framgang málsins.