141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið mig eða ég ekki verið nægjanlega nákvæmur í orðavali þegar ég sagðist í raun veru telja breytingu eða tillögu formanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar góða í málinu eins og það stóð á þeim tíma. Hv. þingmaður bendir réttilega á að við erum ekki sammála um hvort hægt sé að afgreiða stjórnarskrána í heild sinni á þeim tíma sem er fyrir hendi. Við berum virðingu fyrir skoðunum hvor annars.

Ég geri ekki neinar athugasemdir eða set út á að menn flytji tillögur. Ég sagði í ræðu minni að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefði fullan rétt á að flytja sína tillögu eins og þeir fjórir hv. þingmenn sem fluttu breytingartillöguna um auðlindaákvæðið. Ég geri engar athugasemdir við það, þetta er þinglegur réttur viðkomandi hv. þingmanna og þeir geta líka gert það við 3. umr. eins og ég kom inn á í ræðu minni.

Það sem mér finnst mikilvægt og lagði áherslu á er að ná góðri samstöðu um afgreiðslu málsins eins og lagt er upp með það. Mín skoðun er að hægt hefði verið að ná þeim trúnaði og því trausti sem ríkir um að klára málið eins og lagt var upp með það. Ég sagðist ekki gera athugasemd við innihald tillögunnar sem snýr að auðlindaákvæðinu, en mér finnst það ganga þvert á það sem er verið að gera sem eykur tortryggni í þinginu. Það er mín skoðun en auðvitað hafa hv. þingmenn mismunandi skoðanir á því og hafa líka fullan rétt á, eins og hv. þingmaður bendir á og ég kom inn á í ræðu minni, að flytja breytingartillögur við 3. umr. Spurningin er hvort fleiri breytingartillögur komi fram við 3. umr. sem verða svo samþykktar við frumvarpið eins og það er lagt fyrir af því að það snýst um að gera breytingar á (Forseti hringir.) á breytingarákvæðinu sem slíku.